Fara í efni

HVERT LIGGUR ÞÍN LEIÐ DÓRI? HVAÐ SEGIR TÖLVUPÓSTURINN?

Það er skammt stórra högga á milli á vinnumarkaðnum enda mikil eftirspurn eftir vinnuafli og allir sem nenna geta fengið vinnu við sitt hæfi. Þannig er m.a. ljóst orðið að Davíð Oddsson verður aðalbankastjóri Seðlabankans og nú hefur forætisnefnd Alþingis falið Þorsteini Pálssyni sendiherra að hafa með höndum ritun sögu þingræðis á Íslandi. Eru þeir auðvitað báðir vel að þessum störfum komnir, báðir hafa þeir verið formenn Sjálfstæðisflokksins, setið á þingi og verið ráðherrar. Og Davíð er, sem kunnugt er, altmuligmann af guðs náð og Þorsteinn ætlaði á sínum tíma að leggja stund á sagnfræði, og taldi sig raunar gera það, en lauk lögfræðiprófi fyrir einhvern  misskilning. Og það er fleira í pípunum ef marka má Tölvupóstinn sem birtir í morgun bréf frá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni til KG (sem blaðið fullyrðir að sé Kjartan Gunnarsson) og er það svohljóðandi:

Hæ dúllan mín. Ónefndur hló mikið af þessu með sögu þingræðisins, sagði að Steini ætti greinilega ekki að fjalla um sig og sitt tímabil og væri það vel til fundið hjá forsætisnefndinni að afmarka verkefnið með þessum hætti! Sagði hann Steina annars best til þess fallinn að skrifa kennslubók í stjórnmálafræðum, kennslubók sem bæri heitið “Hvernig á formaður Sjálfstæðisflokksins ekki að vera.” Já, ónefndur er alltaf jafnléttur og kátur. Svo sagði ónefndur mér að búið væri að finna verkefni fyrir Dóra Blöndal, hann fari fljótlega í það erfiða en spennandi sérverkefni að semja nýjan þjóðsöng. Að sjálfsögðu veit ég allt um skáldagáfuna en þegar ég spurði um tónlistarbakgrunninn hjá Dóra hló ónefndur mikið og sagði: “Hann var víst eitthvað að gutla á munnhörpu á menntaskólaárunum og svo hefur hann nú fengið æfinguna á forsetabjölluna síðustu árin og ekki slegið eina feilnótu þar.” Já, alltaf gaman hjá ónefndum, hann hefur svo góða nærveru og hlýjan húmor.

Jæja dúllan, sjáumst í kvöld en mig langar að spyrja þig að einu: af hverju notar þú aldrei slaufuna sem ég gaf þér og sem sjálf Margaret Thatcher hafði gefið mér þegar ég var í Oxford forðum? Ertu eitthvað feiminn við litinn? Mér hefur alltaf fundist bleikt fallegt eða hvað sagði ekki Kiljan: Fögur er brekkan, bleikir akrar og vel grónar túnspildur. Sérðu ekki hvað liturinn skiptir miklu máli í þessari ódauðlegu setningu? Kv. HHG

Sending frá Þjóðólfi