Fara í efni

HVERNIG LOSNA MÁ VIÐ SIÐBLINDA STJÓRNMÁLAMENN

Hugtak. Er það ekki eitthvað sem gerir huganum kleyft að ná taki á viðfangsefni? Eða er það ef til vill eitthvað sem byrgir sýn, stöðvar óæskilegan þankagang? Eitthvað sem nær taki á huganum? Getum við tengt þetta vísindalegri umfjöllun og orðsins list? Eða ef til vill óheiðarleika og flokkspólitík? Sölumennsku eða siðblindu? Hugtök geta verið skrítnar skepnur. Íhaldið talar um frelsið fræga. Er það frelsi mitt, þitt eða þeirra? Og frelsi til hvers? Dæmi um yndislegt hugtak en margrætt - viðsjárverð skrautfjöður.
Hvaða íslenskur stjórnmálaflokkur hefur verið seigari Íhaldinu við að taka hugtök í gíslingu? Dæmi: frelsi - miðstýring, þjóðnýting, aðgerðaleysi, óðagot... :)
Samfylkingin sem lengi hefur verið flokkurinn minn talar mikið um erlendar fjárfestingar þessa dagana. En það fer lítið fyrir greiningu. Er það virkilega svo að það skipti litlu máli hvað býr að baki og í hverju er fjárfest. Er virkilega ætlast til þess að við landsmenn bjóðum velkominn hvaða Trójuhest sem fellur undir hugtakið erlendur fjárfestir? Sölumenn erlendrar íhlutunar tala um ljóðskáld, náttúrufegurð og hjálpsemi.
Tillaga mín er þessi: 1) Höfnum undantekningarlaust sölu á auðlindum þjóðarinnar og lögfestum það. 2) Skríðum ekki á hnjánum á undan auðmönnum undir varnarmúr löggjafarinnar.
Eitt hugtak er mér hugleikið þessa dagana, en það er útstrikanir. Það er hugtak sem vísar veginn fyrir alþýðuna að losna við siðblinda stjórnmálamenn.
Sigurjón Mýrdal