Fara í efni

Hvernig forðast má að Mafían eignist Ísland

Birtist í DV 11.11.2002
Ljóst er að ekki einvörðungu íslenskir fjármálamenn eru að koma ár sinni fyrir borð í íslensku fjármálalífi. Þannig segir frá því í fjölmiðlum að Frakkar séu að eignast hlut í Búnaðarbanka, Þjóðverjar í Landsbanka og einnig hefur verið talað um rússneskt fé. Í sjálfu sér þarf ekki að vera verra að erlendir fjármálamenn fái ítök í íslensku fjármálalífi en innlendir. Reyndar hafa menn haft af því mestar áhyggjur að sömu aðilarnir og eru komnir með eignarhald á nánast öllu atvinnulífi hér innanlands eignist einnig fjármálastofnanir landsins. Sú staða, sama hvaða aðili á í hlut, hlýtur að bjóða heim tortryggni um misnotkun aðstöðu og grefur því undan því sem er bankastarfsemi einna mikilvægast, trausti.

Jafnt eindregnustu markaðssinnar sem aðrir hljóta að hafa áhyggjur af slíku. Til að skerpa þessa mynd má ímynda sér hvað gerðist ef glæpahringur eins og Mafían öðlaðist þessi völd og kæmi ár sinni fyrir borð sem ráðandi aðili í atvinnulífi og efnahagslífi þjóðarinnar. Reyndar þarf ekki að ímynda sér svo öfgafullt dæmi. Alþjóðlegir auðhringir hafa ekki reynst vandir að virðingu sinni og iðulega troðið á almannahagsmunum þar sem þeir hafa náð undir sig eignum almennings.

Eina vörnin gegn slíku er eignarhald þjóðarinnar á grunnþjónustuþáttum á borð við raforku, vatnsveitur, velferðarstofnanir og í þessu samhengi verður einnig ljóst hve mikilvægt er að tryggja eignarhald þjóðarinnar á einum traustum ríkisbanka. Þar væri að finna verðuga kjölfestu og varnir fyrir lýðræðisþjóðfélag. Núverandi ríkisstjórn reisir þjóðinni enga slíka varnarmúra. Þvert á móti rífur hún þá niður. Sem betur fer nálgast kosningar. Hins vegar er ljóst að áður munu mikil spjöll hafa verið unnin á íslensku þjóðfélagi.