Fara í efni

HVERNIG Á AÐ BREYTA STJÓRNARSKRÁ ÍSLANDS?

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 30.04/01.05.16.
Á Alþingi eru þau til sem vilja halda sig við núverandi stjórnarskrá að uppistöðu til. Á öndverðum meiði eru svo hin sem vilja að stjórnarskrártillögur Stjórnlagaráðs verði samþykktar óbreyttar.
Þá er það þriðja fylkingin sem vill hlíta þeim vilja sem á sínum tíma kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu, þess efnis að í breyttri stjórnarskrá ættu að vera auknir möguleikar til beins lýðræðis, almannaeign á auðlindum yrði betur tryggð og síðan að þjóðkirkjan haldi sinni stöðu. Að vísu heyrist sjaldan talað um þennan síðasta þátt, alla vega af hálfu þeirra sem telja breytingar á stjórnarkrá allra meina bót.

Ef okkur hefði auðnast á síðasta kjörtímabili að halda okkur við þessa þætti, og þá einkum það sem snýr að  lýðræði og auðlindum, þá  má ætla að okkur hefði tekist að ná fram breytingum í anda þess sem vilji almennings augljóslega stendur til. Grundvallarafstaðan til auðlindanna og lýðræðisins er kunn og hefur verið rædd í þaula. Sumir eru með, aðrir á móti. Vissulega er um alls kyns blæbrigði að ræða í skoðunum. Þannig fannst mér sjálfum Stjórnlagaráð fullíhaldssamt að heimila ekki að almenningur gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárhagsleg málefni og milliríkjasamninga á borð við Icesave! Sömuleiðis þótti mér Stjórnlagaráð bregðast varðandi einkaeignarrétt. Í mínum huga get ég fallist á að binda í stjórnarskrá rétt til eignar á íbúðarhúsnæði, bújörð eða fyrirtæki. En á það líka að gilda um tvö hundruð þúsund milljarða? Er það heilagur réttur til eignar, og á hann að vera stjórnarskrárvarinn? 

En hvað sem þessu líður, þá þekkjum við í grófum dráttum þjóðarviljann varðandi lýðræðið, almannaréttinn og auðlindirnar.

En hvað með aukið miðstjórnarvald forsætisráðherra og hvað með markaðsvæðingu auðlinda landsins? Spurt er því hvoru tveggja gerðu tillögur Stjórnlagaráðs ráð fyrir. Er eftirsóknarvert að miðstýra hinu pólitíska framkvæmdavaldi meira en þegar er orðið? Og viljum við að forsenda fyrir ráðstöfun á vatni, orku og auðlindum almennt, sé ófrávíkjanlega sú, að fyrir þær fáist sá hámarksarður sem kreista má út á markaði. Allt þar undir varði brot á stjórnarskrá!  Þarf ekki að ræða þetta eitthvað frekar?

Jafnvel þótt þjóðin hafi viljað að ný stjórnarskrá yrði byggð á drögum Stjórnlagaráðs þá er margt þar órætt. Prýðileg tillaga kom fram undir lok síðasta kjörtímabils og lögum var breytt í samræmi við hana,  um að gera mætti breytingar á stjórnarskránni með hraðvirkum hætti á yfirstandandi kjörtímabili í ljósi þeirrar umræðu sem þegar hefur átt sér stað.

Allt eða ekkert, heyrist þá hrópað og lítið gefið fyrir að ræða þurfi þau álitamál sem að framan greinir.

Umræðan um stjórnarskrá Íslands á annað og betra skilið en að forskrúfast með þessum hætti. Þá hreyfist lítið, jafnvel þótt mikið sé skrúfað.

Hvernig væri að taka annan pól í hæðina og ræða einstaka þætti, eins og til dæmis möguleg mörk á þeim einkaeignarrétti sem verði stjórnarskrárvarinn eða hvort binda eigi í stjórnarkrá arðsemiskröfu markaðshyggjunnar?

Í millitíðinni gætum við samþykkt auknar heimildir til beins lýðræðis, hert á ákvæðum um almannaeign á auðlindum og aukið vernd nátturunnar eins og tillögur liggja nú fyrir um. Þessi nálgun er líklegri til farsællar niðurstöðu en að hamra á því einu að breyta þurfi stjórnarskránni á einu bretti.