Fara í efni

HVERJUM ER TREYSTANDI?

Birtist í Blaðinu 10.05.07.
Hverjum er best treystandi til að berjast fyrir auknum jöfnuði og jafnrétti í þjóðfélaginu?Hverjum er best treystandi til að stöðva áform Sjálfstæðisflokksins um að einkavæða Landsvirkjun?
Hverjum er best treystandi til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn einkavæði heilbrigðiskerfið?
Hverjum er best treystandi til að standa vörð um almannaeignir?
Hverjum er best treystandi til að koma í veg fyrir stuðning Íslands við næstu Íraksinnrás – það gæti orðið Íran?
Hverjum er best treystandi í baráttu fyrir kvenfrelsi?
Hverjum er best treystandi til að bæta kjörin og útrýma fátækt?

Hvað segir reynslan?

Reynslan segir að Vinstrihreyfinigin grænt framboð hafi frá stofnun flokksins sett velferðar- og jafnréttismál á oddinn.
Reynslan segir að vægi kvenna er mest á framboðslistum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Reynslan segir að Vinstrihreyfinigin grænt framboð hafi einn flokka staðið gegn Kárahnjúkavirkjun.
Reynslan segir að Vinstrihreyfingin grænt framboð hafi einn flokka reynt að afstýra sölu Landssímans.
Reynslan segir að Vinstrihreyfingin grænt framboð gætir eigna þjóðarinnar.
Reynslan segir að Vinstrihreyfingin grænt framboð stendur vaktina fyrir þá sem þurfa að reiða sig á velferðarþjónustuna.
Reynslan segir að Vinstrihreyfingin grænt framboð gætir hagsmuna starfsmanna velferðarþjónustunnar.
Reynslan segir að Vinstrihreyfingin grænt framboð stendur vaktina fyrir þá sem standa straum af kostnaði við velferðarþjónustuna. 

VG er afgerandi afl

Stjórnarandstaðan hefur staðið vel saman um ýmis mál, RÚV, vatnið, í öryrkjamálinu og saman höfum við barist fyrir bættum kjörum öryrkja, aldraðra og umbótum í velferðarkerfinu. Vonandi gefst okkur tækifæri að koma hugsjónum okkar í framkvæmd. En ég fullyrði að án sterkrar innkomu VG á þingi vantar hrygglengjuna í baráttuna.
VG er afgerandi afl.