Fara í efni

HVE HÁ OG HVE BREIÐ ÞYRFTI FLUGBRAUT ÞARNA AÐ VERA?

Það var bæði stórstreymt og rok þegar ég gekk eftir Ægisíðunni í Reykjavík í morgun. Á þessari efri mynd sést í austur/vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar.

Fram hafa komið hugmyndir um að lengja þessa flubraut út í Skerjafjörðin. Að öllum líkindum kæmi flugbrautin þá til með að liggja á uppfyllingu sem yrði samsíða Ægisíðunni í vesturátt en myndin hér að neðan vísar í þá átt. Mannvirkin til vinstri á myndinni standa við Sundskálavör. Þar var vinsæll sundstaður fyrr á tíð, þar lærði móðir mín að synda. Stóra glæsilega húsið til hægri er Lambhóll.

Spurningin er hins vegar hve há flugbrautin þyrfti að vera svo tryggt yrði að grjót og þari feyktust ekki upp á brautina við veðurskilyrði eins og í morgun.

Nema að ákveðið verði að malbika Skerjafjörðinn allan. Það mætti segja mér að þá myndi heyrast hljóð úr horni frá vinum Skerjafjarðar.

Einhver kann að segja að eflaust megi treysta á dómgreind borgaryfirvalda.

En er á hana að treysta?

Mér skilst að enn sé nefnd að rannsaka hvort ekki gæti verið ráð að gera nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Einhverjir héldu að þessu nefndarstarfi yrði sjálfhætt eftir að goshrinan hófst.

Það gerðist ekki. Það segir sína sögu – ekki sérlega uppörvandi sögu.