Fara í efni

HVATNING TIL AÐ LESA BÆKLING

Út er kominn hjá BSRB bæklingur með fyrirlestri sem Allyson M. Pollock, prófessor við háskólann í Edinborg í Skotlandi, flutti hjá BSRB í lok maí mánaðar. Jafnframt kennslu og fræðastörfum veitir höfundurinn forstöðu rannsóknarstofnun sem sérhæfir sig í skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og afleiðingum hvers kyns breytinga sem á henni eru gerðar (Centre for International Public Health Policy http://www.health.ed.ac.uk/CIPHP/ ). Til Allyson M. Pollock er af þeim sökum mikið leitað af hálfu fjölmiðla, ekki aðeins í Bretlandi heldur víðs vegar um heiminn.
Í heimsókn sinni til Íslands kynnti Allyson M. Pollock sér fyrirhugaðar breytingar á íslenska heilbrigðiskerfinu, og þá ekki síst frumvarpi Guðlaugs Þórs heilbrigðisráðherra um nýja Sjúkratrygginga- og innkaupastofnun í heilbrigðiskerfinu.
Niðurstaða hennar var sú að verið væri að leggja upp í svipaðan leiðangur og Bretar lögðu upp í fyrir tæpum tuttugu árum samkvæmt frjálshyggju-forskrift Margrétar  Thatchers. Verkamannaflokkurinn undir forystu Blairs hafi tekið við keflinu þegar hann komst til valda en innan raða flokksins hafi allt of margir verið slegnir blindu. Afleiðingarnar hafi reynst hörmulegar.
Það ömurlegasta hafi verið hve andvaralaust fólk hafi verið. Þess vegna hafi einkavæðingarsinnarnir haft sitt fram. Látum þetta ekki henda okkur. Ég hvet alla til þess að lesa bæklinginn með ræðu þessa breska fræðimanns og láta síðan til sín taka í umræðu - hvort sem er manna á meðal eða á opinberum vettvangi.
Á þessari slóð hjá BSRB má nálgast bæklinginn í rafrænu formi: http://www.bsrb.is/Default.asp?ID=0&type=one&news_id=1389&menuid=