Fara í efni

Hvaða nefndarlaun þola ekki dagsljósið?

Allt er hefðbundið á þessu sumri varðandi birtingu skattaskýrslna. Ungir sjálfstæðismenn mótmæla því hástöfum að upplýsingar um tekjur séu birtar og telja það vera brot á mannréttindum! Nú sem fyrr eru það helg mannréttindi hátekjufólksins sem íhaldið unga ber fyrir fyrir brjósti og beinir sínum hugsjónakröftum að. Flestum öðrum finnst birtingin vera sjálfsagt mál.
Skipting verðmætanna í samfélaginu er ekkert einkamál og sjálfur er ég þeirrar skoðunar að í hinu opna fyrirkomulagi felist auk þess ákveðið aðhald. Nefndarlaun hjá hinu opinbera hafa nokkuð borið á góma í umræðu síðustu daga. Sannast sagna er með ólíkindum að ríkisvaldið skuli neita að upplýsa kjör nefndarmanna í aðskiljanlegum vinnunefndum. Þetta er spurning um gagnsæja stjórnsýslu og vekur þetta pukur upp spurningar um hvort óhreint mjöl sé í pokahorninu. Ég er sannfærður um að ekkert er að fela þegar á heildina er litið. Hins vegar hefur komið fram sukk af verstu gerð og þurfti að toga staðreyndirnar út með töngum á Alþingi á sínum tíma þegar kjör einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar voru annars vegar. Nefndarmönnum hafði ekki nægt að þiggja há nefndarlaun heldur réðu þeir sjálfa sig til þess að vera sjálfum sér til ráðgjafar – að sjálfsögðu á himinháum töxtum sjálfstætt starfandi lögfræðinga. Er það þessum mannskap sem verið er að hlífa?

Sem áður segir er í flestum tilvikum ekkert að fela varðandi nefndarlaun hjá ríkinu og er hinum almenna nefndarmanni ekki gerður greiði með þessu pukri. Þvert á móti þá verður leyndin þess valdandi að allir liggja undir grun.

Ég læt hér fylgja slóð á fyrirspurn Kristjáns L. Möllers alþingismanns um kjör nefndarmanna í einkavæðingarnefndinni og mjög upplýsandi utandagskrárumræðu um þetta efni. Fram kemur t.d. að einn nefndarmannanna hafði fengið 5 milljónir í greiðslur á einu ári!

http://www.althingi.is/pdf/thingskjal.php4?lthing=127&skjalnr=648

http://www.althingi.is/altext/127/02/l18152931.sgml