Fara í efni

HVAÐ VAKIR FYRIR RÁÐHERRUNUM?

Heill og sæll Ögmundur.
Ég varð all undrandi þegar ég heyrði, sá og las í fréttum að forsætisráðherra og fjármálaráðherra væru að snupra skilanefnd gamla Glitnis fyrir að stefna pörupiltum fyrir rétt vegna horfinna milljarða úr sjóðum bankans. Þau eru bæði steinhissa, og virtust af einhverjum ástæðum skömmustuleg að svona geti hafa gerst, trúa því varla á „strákana sína" (broskarl). Eftir ríkisstjórnarfund skal sérstaklega átalið og þar með málið gert hápólitískt, að nefndin hafi ekki strax og hljóðlaust sent málið til sérstaks saksóknara, sem þýðir í reynd að yfir því myndi hvíla leynd og þagnarskylda um ókomna mánuði og jafnvel ár. Gott og vel, en er það að einhverju leyti óþægilegt að nefndin hafi „kjaftað" frá með þessu móti núna? Fyrir Jóhönnu? Fyrir Steingrím? Ögmundur, látum Jóhönnu liggja milli hluta það geta verið skýringar á hennar framkomu. En Steingrímur, formaðurinn þinn af öllum mönnum! Hvað knúði ríkisstjórnina til að taka á málinu og hann að spila með? Þetta eru einkafyrirtæki og grunur um meint fjársvik innan þeirra. Þetta er mál skilanefnda og ákæruvaldsins. Stefnan er eins og hróp í eyðimörkinni, gerir meint svikamál opinbert, og ríkisstjórnin harmar að ekki sé þagað yfir þessu með því að málið skuli ekki vera látið skríða undir teppinu til saksóknara án þess að gera það oinbert. Hvað er verið að harma? Það eru týndir milljarðar. Samvaxnir viðsskiptasíamstvíburar stýra enn tangónum. Annar þeirra rekur flugfélag, sem flýgur á vafasömum tryggingaforsendum og einhverjir virðast vera búnir að ákveða að hinn helmingurinn haldi áfram að drotna yfir versluinni í landinu, með aðstoð eins bankans, sem ríkið henti frá sér af fávisku og á röngum tíma. Hvaða ráðherrar sjá um þessi mál? Ögmundur, stendur flokkurinn þinn, þingflokkurinn þinn og þú að baki þeirra ráðherra, sem ganga svona fram eins og gert er í þessu tilviki? Kanntu skýringu á því, hvers vegna ríkisstjórnin er að skipta sér af þessu? Hvers vegna er hún að skamma skilanefndina fyrir hönd pörupiltanna, fyrir að nota stefnu til að opinbera meint svikamál? Kanntu einhverja skýringu?
Bestu kveðjur úr útlandinu,
Kristján Auðunsson