Fara í efni

HVAÐ VAKIR FYRIR MORGUNBLAÐINU?

Birtist í Morgunblaðinu 11.05.06
Undarlegt hefur verið að fylgjast með tilraunum fjölmiðla að grafa undan baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Í Reykjavík tóku að þessu sinni þúsundir manna þátt í atburðum sem tengjast deginum og iðaði borgin bókstaflega af lífi. Er það mál manna að dagurinn hafi verið sérlega vel heppnaður. Sem dæmi má nefna að hjá BSRB og Eflingu komu 700 manns í samstöðukaffi hjá öðrum aðilanum 900 hjá hinum, og hjá öðrum félögum var þátttaka einnig mikil. Sumir stjórnmálaflokkanna voru einnig með dagskrá í tilefni dagsins. Ætla má að ekki hafi allir sem mættu á slíkar samkundur tekið þátt í kröfugöngu verkalýðsfélaganna og útifundinum en flestir munu þó hafa gert það. Nú bregður svo við að fréttastofa Ríkisútvarpsins segir að 400 manns hafi tekið þátt í kröfugöngunni og helmingi fleiri hafi verið á útifundinum á Ingólfstorgi. Morgunblaðið bætir um betur og segir að tvö hundruð manns hafi tekið þátt í kröfugöngunni! (sjá frétt blaðsins bls. 60, 7. maí sl)
Nú hafa ljósmyndir birst sem sýna hvers konar endemis  rugl þetta er – sjá t.d. heimsíður verkalýðsfélaganna. Sjálfur var ég á fjölsóttum fundi verkalýðsfélaganna í Stapanum í Reykjanesbæ þennan dag og kom í lokin á 1. maí kaffinu í BSRB húsinu – þar var þó enn þéttskipað. Ég hef leitað mér nákvæmra upplýsinga um málið hjá fjölda manns og furða sig allir á greinilegum ásetningi fjölmiðlamanna að tala niður fjöldann sem þátt tók í 1. maí í Reykjavík að þessu sinni. Félagi minn í BSRB, formaður eins aðildarfélags bandalagsins sagði mér að þegar hún hefði verið stödd efst í Bankastræti hefði Lúðrasveit verkalýðsins verið að koma inn á Ingólfstorgið. Þá hafi Austurstrætið verið krökkt af fólki. Tvö hundruð manns? Varla. Hvað vakir fyrir Morgunblaðinu? Ég tek undir með Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins í skrifum hans undanfarna daga, þar sem hann vekur athygli á hlut verkalýðshreyfingarinnar í framfarasókn þjóðarinnar fyrr og nú.
Ég geri engar kröfur til Morgunblaðsins um að vera okkur eða öðru fólki sammála um gildi verkalýðsbaráttunnar. Að sjálfsögðu ekki. Ég geri hins vegar kröfu til Morgunblaðsins að það fari rétt með staðreyndir. Ekki kveinkum við okkur undan málefnalegri umræðu um stöðu og gildi verkalýðsbaráttu. Þvert á móti fögnum við henni enda hlutskipti þeirra auðvelt sem eiga góðan málstað að verja.
Margt ágætt var sagt í Morgunblaðinu í aðdragandanum að 1. maí. Það er eins og blaðið hafi misst sig í kjölfarið. Ágæta grein skrifaði hins vegar ungur frjálshyggjumaður í Fréttablaðið og tók hann – á sinn hátt - upp hanskann fyrir verkalýðshreyfinguna. Kvaðst hann hafa verið sæmilega nestaður úr foreldrahúsum á Siglufirði í uppvextinum um málefni verkalýðshreyfingarinnar. Síðan hafi hann komið suður og lært að meta hin borgaralegu gildi, þar með talið sjálfa brjóstvörnina, Morgunblaðið, sem nú hafi hins vegar brugðist bogalistin í umfjöllun um 1. maí. Þetta er Illugi Gunnarsson. Kannski hefur hann eitthvað lært við fótskör tengdaföður síns, Einars Odds Kristjánsssonar, alþingismanns og fyrrum formanns atvinnurekenda. Þótt auðvelt sé að vera ósammála þeim manni kann hann þó eitt: Að vilja virða andstæðing sinn að verðleikum og fara rétt með staðreyndir.