Fara í efni

HVAÐ SEGJA UMÖNNUNARRÁÐHERRAR UM LAUNAKJÖRIN OG KJARASAMNINGA FRAMUNDAN?


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði í fréttum um helgina að í komandi kjarasamningum yrði að hækka laun kennara verulega. Undir þetta tek ég.  Það gerði formaður Kennarasambandsins einnig. Laun grunnskólakennara ganga ekki upp. Það ber öllum saman um. Nú verður fylgst með því að ríkisstjórn Þorgerðar Katrínar geri yfirlýsingar menntamálaráðherrans ekki ómerkar.
Ef marka má það sem sagt var í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga er eindreginn vilji til að láta ekki staðar numið við grunnskólakennara. Hækka þurfi einnig laun annars staðar innan almannaþjónustunnar, ekki síst í umönnunargeiranum. Að honum er meira að segja vikið sérstaklega í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna? Eflaust vegna þess að þar eru greidd laun sem ósanngjarnt er að borga fyrir þá vinnu sem þar er innt af hendi. En væntanlega einnig vegna hins, að ekki verður hægt að reka þessar stofnanir án róttækra breytinga í launaumhverfinu.
Ég sakna þess að þeir ráðherrar, sem fara með heilbrigðismál og félagsmál, þau Guðlaugur Þór Þórðarson og Jóhanna Sigurðardóttir, séu spurð á sama hátt og menntamálaráðherra um starfsfólk skólanna, hvað þeim finnist um þau laun, sem  starfsfólki á dvalarheimilum aldraðra, sjúkrahúsum og stofnunum fyrir fatlaða eru greidd. Ætla þau að beita sér þessu fólki til framdráttar?
Ég er sannfærður um að ef ekki verður samið af raunsæi við starfshópa innan þessara geira, sem búa við ófullnægjandi kjör þá mun kerfið springa í skipulegum og óskipulegum launauppreisnum fyrr eða síðar.
Tónninn í láglaunahópum er að harðna. Skiljanlega og sem betur fer. Þetta segir t.d. í nýlegum blogg-skrifum starfsmanns á dvalarheimili fyrir aldraða: „Ég hinsvegar næ ekki að klára næturvaktina mína á réttum tíma, einn starfsmannanna í  umönnunni á dvalarheimilinu sem ég vinn hjá er veikur og því vantar nú 3 og ég vinn til hádegis. Um mánaðar lok uppsker ég, fyrir óeigingjarna vinnu sem bæði er líkamleg og meiriháttar andlega erfið, laun útborguð sem samsvara 164.565 kr. Ég fer því miður ekki heim til mömmu og pabba! Af mínum launum hefur verið tekið 57.534 kr til skatts, en persónuafsláttur minn ver mig að upphæð 34.034 kr." 
Sjá nánar: http://www.bestiheimi.blog.is/blog/bestiheimi/