Fara í efni

Hvað segja forsvarsmenn Sjáfstæðisflokksins í skatta- og heilbrigðismálum um þetta?

Fyrir réttri viku birtist merkilegt viðtal í Morgunblaðinu við dr. J. Lariviére, aðallyfjaráðgjafa hjá alþjóðadeild kanadíska heilbrigðisráðuneytisins en hér á landi sat hann fund Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Dr. J. Lariviére varaði mjög eindregið við einkavæðingu og sagði að við ættum að meta að verðleikum grunnþætti heilbrigðiskerfisins. Þeir tryggðu aðgang að opinberri heilbrigðisþjónustu. Hann bætti því við að um þetta væri nokkuð víðtæk samstaða.

Undir það skal svo sannarlega tekið en hitt verður þó að hafa í huga að þótt almenningur sé þessarar skoðunar gildir ekki hið sama um ráðandi öfl sem virðast ekkert sjá annað en einkavæðingu. Lariviére tekur undir þetta í viðtalinu við Morgunblaðið og segir mönnum hætta til að ofmeta einkaframtakið í heilbrigðisþjónustu. "Í Kanada höfum við sýnt hvað eftir annað, með okkar eigin tölum og með því að bera okkur saman við Bandaríkin, að með opinberri heilsugæslu er hægt að halda stjórnunarkostnaði um 1%. Í Bandaríkjunum er þetta hlutfall nær því að vera 10%. Þetta þýðir ekki að einkafyrirtækin eigi sér ekki hlutverk í heilbrigðisþjónustunni. Þau geta veitt ýmsa þjónustu, s.s. mat og föt, en þegar kemur að því að veita lyfja- eða læknisþjónustu er það í hag heildarinnar að hið opinbera sjái um þá þjónustu."

Væri ekki ráð að hlusta á þessi orð Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Ásta Möller alþingismaður?

Og hvernig væri fyrir stjórnarmeirihlutann – hinn sama og fagnaði svo ákaft komandi skattalækkunum - að íhuga eftirfarandi orð Kanadamannsins:

"Fyrir þremur vikum var leiðari í dagblaði í Ottawa um Finnland og að Finnar væru samkeppnishæfastir allra þjóða þrátt fyrir umsvifamikið velferðarsamfélag og háa skatta. Þetta og reynsla flestra norrænu þjóðanna sýnir að menn geta búið við kerfi sem miðar að jöfnuði og sanngjarnri dreifingu tekna með tiltölulega háum sköttum og góðri opinberri þjónustu en á sama tíma verið með samkeppnishæft og framsækið þjóðfélag."