Fara í efni

HVAÐ GERA ÞAU GUÐLAUGUR ÞÓR OG JÓHANNA?

FB logo
FB logo

Birtist í Fréttablaðinu 07.02.08.
Tónninn í láglaunahópum samfélagsins er að harðna. Skiljanlega og sem betur fer. Starfsmenn á velferðarstofnunum samfélagsins eru ýmsir við það að gefast upp, bæði vegna óforsvaranlegs álags og lágra launa. Ástandið er fyrir löngu orðið ólíðandi og nú ríður á að ríkisstjórnin axli ábyrgð.
Ég er sannfærður um að ef ekki verður samið af raunsæi við starfshópa innan þeirra geira sem búa við ófullnægjandi kjör þá mun velferðarkerfið springa í skipulegum og óskipulegum launauppreisnum fyrr eða síðar. Áframhaldandi ástand bitnar á þeim sem síst skyldi, börnum, öldruðum, veikum og fötluðum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, lét nýlega hafa eftir sér að í komandi kjarasamningum yrði að hækka laun kennara verulega. Þetta eru orð í tíma töluð, en nú þarf líka að láta verkin tala. Laun grunnskólakennara ganga einfaldlega ekki upp.
Allir flokkar lýstu því yfir í síðustu Alþingiskosningum að eindreginn vilji væri til staðar við að hækka ekki einungis laun grunnskólakennara heldur einnig annarra starfsmanna almannaþjónustunnar, og þá allra helst í umönnunargeiranum. Að þessu er meira að segja vikið sérstaklega í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur því öllum að vera ljóst að ekki verður lengur við það búið að greidd séu svo ósanngjörn laun. Það verður einfaldlega ógerlegt að reka velferðarstofnanir samfélagsins án róttækra breytinga í launaumhverfinu.
Ég sakna þess að þeir ráðherrar, sem fara með heilbrigðismál og félagsmál, þau Guðlaugur Þór Þórðarson og Jóhanna Sigurðardóttir, séu líkt og menntamálaráðherra spurð hvað þeim finnist um laun starfsfólks á dvalarheimilum aldraðra, sjúkrahúsum og stofnunum fyrir fatlaða.
Það verður fylgst með því að ríkisstjórn Þorgerðar Katrínar geri yfirlýsingar menntamálaráðherrans um bætt laun kennara ekki ómerkar. Neyðarástandi í grunnþjónustu samfélagsins verður að ljúka. Hvað ætla Guðlaugur Þór og Jóhanna að gera?