Fara í efni

HVAÐ FÉKK BINGI Í BAKIÐ?

„Ef Guðjón Ólafur er með hnífasett í bakinu, ja þá veit ég ekki hvað ég er með ."  Þannig komst Björn Ingi Hrafnsson borgarfulltrúi að orði í viðtali eftir vel skipulagða árás flokksfélaga síns og fyrrverandi perluvinar, Guðjóns Ólafs Jónssonar. Í Silfri Egils sakaði hann Björn Inga um stórfellt fatakaupasvindl á kostnað Framsóknarflokksins fyrir gommu fjár. Þá fór Guðjón Ólafur mörgum orðum um illt innræti borgarfulltrúans, sem nú er raunar fyrrverandi eftir allt saman, og sagðist allur sundurstunginn í baki eftir Björn.

Já, framganga Guðjóns Ólafs var eins og við mátti búast úr þeirri áttinni en hvað skyldi Björn Ingi hafa fengið í bakið? Víst er að ekki var það venjulegt þursabit. Og þar sem mér þykir mikill sjónarsviptir að Birni Inga Hrafnssyni úr pólitíkinni tel ég fulla ástæðu til þess að bakmein hans verði skoðað miklu betur en gert hefur verið. Þá er ekki ólíklegt að fleiri stjórnmálamenn þurfi einnig á bakeftirliti og rannsóknum að halda. Hér með hvet ég til einhverra fyrirbyggjandi ráðstafana á þessu sviði því auðvitað er það þjóðinni og lýðræðinu ekki hollt að sjá stjórnmálamenn hverfa með þessum hætti af sjónarsviðinu - rétt eins og hendi sé veifað - án meðfylgjandi sæmilegra skýringa.
Þórður