Fara í efni

Hvað er verið að gera úr okkur?

Íslenski fáninn er brenndur á götu í Kaupmannahöfn, utanríkisráðherrann segir nánast að Alþingi komi ekki við stefnumótun ríkisstjórnarinnar varðandi hlutdeild okkar í árásunum á Írak. En áður en lengra er haldið ætla ég að vitna í sóknarprestinn í Neskirkju í Reykjavík: "NATO dregur okkur lengra og lengra inní hættulegan stríðsleik. Við erum farin að samþykkja ýmislegt sem við áður vorum á móti vegna löngunar til að vera talin gjaldgeng í hópi hinna voldugu þjóða. Hið stóra í þjóðarsál okkar hefur þar með verið gengisfellt. Við hefðum ef til vill átt erindi í Öryggisráð SÞ fyrir nokkrum árum þegar við gátum státað af þúsund ára sögu friðar og sáttargjörðar í samskiptum innbyrðis og við aðrar þjóðir. Er sá tími liðinn eða eigum við þess enn kost að snúa við og halda fast í forna hefð og frægð? Göngum nú í okkur sem þjóð og tökum vit- og siðræna ákvörðun varðandi heimsmálin. Virðum vilja forfeðra og mæðra og höldum áfram á braut friðar og réttlætis. Þá mun okkur vegna vel sem þjóð. Þá verðum við stór þjóð og munum njóta vaxandi virðingar í samfélagi þjóðanna, innan eða utan Öryggisráðs SÞ."

Þannig mælist séra Erni Bárði Jónssyni í grein sem hann birti í Vesturbæjarblaðinu nýlega en vefslóðina er að finna hér að neðan.

Sú spurning gerist nú æ áleitnari hvort helstu talsmenn ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum, Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra séu algerlega heillum horfnir, gersneyddir allri dómgreind. Fyrst var það Falung gong þegar barnaskólinn í Keflavík var gerður að fangabúðum til að koma í veg fyrir að Kínaforseti sæi fólk í gulum fötum mótmæla mannréttindabrotum í Kína og svo kemur þetta sem er náttúrlega miklu alvarlegra. Skuldbinding fyrir hönd þjóðarinnar að láta í té alla aðstöðu hér á landi sem þörf krefur til stríðsrekstursins gegn Írökum. Af Natóþjóðunum hafa að minnsta kosti Belgar og Frakkar  sagt að þeir taki þetta ekki í mál og flestar aðildarþjóðir bandalagsins  hafa sýnt þjóðþingum sínum þá kurteisi að ræða málið. Því er ekki að heilsa hér á landi. Þingsályktunartillaga VG um andstöðu gegn yfirvofandi stríði gegn Írak og banni við notum á íslensku landi og lofthelgi í því sambandi fékkst ekki afgreidd út úr utanríkismálanefnd Alþingis svo þingið gæti tekið afstöðu til hennar og nú lýsir utanríkisráðherra því yfir að þetta sé "ekki meiriháttar utanríkismál" fyrir Íslendinga sem þurfi að koma til kasta þingsins. Allir þekkja fréttaumfjölllun síðustu daga.

Í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi hafði utanríkisráðherra Íslands stór orð um ungmennin (sem virtust upprunnin í Austurlöndum) sem brenndu íslenska fánann í Kaupmannahöfn í gær. Ég held að við höfum öll verið slegin óhug. Halldór Ásgrímsson talaði um þetta sem alvarlegan glæp. En við skulum ekki gleyma því hvernig við lítum út í augum þeirra sem nú er ráðist á. Og sannast sagna gerist sú spurning nú mjög áleitin hverjir það eru sem sverta ímynd Íslands út á við. Það er ömurlegt til þess að hugsa hvern sess ríkisstjórn Íslands er að skapa okkur í samfélagi þjóðanna.

Sem utanríkisráðherra hefur Halldór Ásgrímsson lagt mikla áherslu á að Ísland fái sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Höfum við nú fengið forsmekkinn af því hvernig hann sér fyrir sér að Íslendingar haldi þar á málum? Við hljótum að taka undir með séra Erni Bárði Jónssyni sem spyr í fyrrnefndri grein: Á Ísland erindi í Öryggisráð SÞ?  
http://www.neskirkja.is/eldraefni32.ht