Fara í efni

HVAÐ ER BEST FYRIR HANA?

Þorleifur Gunnlaugsson, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík skrifar umhugsunarverða grein hér á síðuna þar sem hann hvetur til þess að stjórnmálasambandi verði slitið við Ísrael og viðskiptabann sett á landið. Þorleifur minnir á viðskiptabannið sem sett var á Suður-Afríku á dögum aphartheidstefnunnar: " Í Ísrael situr engu minni ofbeldisstjórn en kynþáttastjórnin í Pretoríu, sem fór með stjórn Suður-Afríku. Ég bið menn um að íhuga þetta vel – vel en hratt. Svo hrikalegt er ástandið nú fyrir botni Miðjarðarhafs, svo skelfilegt er ofbeldið, að engan tíma má missa. Okkur hreinlega ber að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma þeim, sem fyrir ofsóknunum verða, til hjálpar."

Undir þetta skal tekið. Ég setti fram svipaðar vangaveltur vorið 2004. Til sanns vegar má færa að ástandið sé nú orðið mun verra en það var þá og full ástæða til að íhuga þennan kost vel. Sjálfum fyndist mér að fyrsta skrefið eigi að vera ósk, af Íslands hálfu, að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna verði kallað saman þegar í stað til þess að reisa kröfu á hendur Ísrael um að láta þegar í stað af stríðsglæpum, kúgun og ofsóknum. Þingflokkur VG hefur sett þessa hugmynd fram og rökstutt hana á opinberum vettvangi, sjá m.a. HÉR.

Ég vil hvetja til umræðu um þetta efni. Auðvitað snýst spurningin aðeins um eitt. Hvað kemur sér best fyrir fórnarlömb ofbeldisins og stríðsglæpanna. Hvað kemur sér best fyrir fólkið á Gaza-svæðinu eða í Qana, þar sem myndin af konunni  hér að ofan er tekin. Hvað kemur sér best fyrir hana? 

Til upplýsingar læt ég hér fylgja slóðir sem vísa á umræðu um þetta efni hér á síðunni í maí 2004, sbr. m.a.
HÉR,
HÉR