Fara í efni

Hvað á að hafa forgang í fæðingarorlofssjóði?

Birtist á vg.is/postur 02.06.04
Nokkrar breytingar voru gerðar á fæðingarorlofslögunum fyrir þingslitin. Í opinberri umræðu um þessar breytingar hefur einkum verið stanæmst við ákvörðun um að setja þak á greiðslurnar, þannig að aldrei verði greiðslur úr sjóðnum meira en 80% af 600.000 kr. mánaðartekjum. Færð hafa verið prýðileg rök fyrir því að þetta hafi verið misráðið. Þetta stríði gegn því markmiði laganna að stuðla að því að allir foreldrar sinni börnum sínum óháð tekjum. Þá er á það bent að vaxi mönnum hátekjurnar í augum. þá skuli menn minnast þess að þarna erum við að fá innsýn í veruleika sem er til staðar öllum stundum, ekki aðeins þá mánuði sem viðkomandi er í fæðingarorlofi.Taka eigi á launamisréttinu beint en ekki í gegnum fæðingarorlofssjóð. Í þriðja lagi hefur verið bent á að tryggingaiðgjald standi straum af kostnaði við fæðingarorlof, það sé hlutfall launa og ekkert óeðlilegt við að það skili sér í útgreiðslum. Allt eru þetta gild rök.

Engu að síður finnst mér þurfa að nefna nokkur atriði til viðbótar til að fylla myndina. Í fyrsta lagi var ákveðið að endurskoða forsendur fæðingarorlofssjóðsins vegna þess að hann stefndi í þrot. Ekki stóð til að auka innstreymi í sjóðinn, aðeins breyta greiðslum úr honum. Það samhengi verður að hafa hugfast. Í umsögn BSRB sagði t.d. "BSRB leggst ekki gegn þeirri aðferð að setja þak á greiðslur úr sjóðnum ef valkosturinn er að skerða greiðslur til allra."

Fram hafði komið að þetta tvennt væri til athugunar. Einnig mun hafa verið rætt um að fara blandaða leið. Sú varð niðurstaðan. Þótt hlutfall orlofsgreiðslna af launum hafi ekki verið lækkað var viðmiðunartímabilið lengt aftur í tímann. Það þýðir að viðmiðunartalan verður lægri en ella hefði orðið því launin sem lögð eru til grundvallar eru eldri. Þetta getur þýtt að 80% viðmiðið fari í reynd í 70%. Ástæðan fyrir því að stjórnarandstaðan skar ekki upp herör gegn þessu var sú að lenging viðmiðunartímans getur komið sér vel fyrir fólk sem verður atvinnulaust hluta úr tímabilinu. Lenging viðmiðunartímans dregur þannig úr sveiflum í tekjum. Það er kostur. Stjórnarandstaðan taldi hins vegar að með því að vísitölubinda launin á öllu tímabilinu mætti draga verulega úr skerðingunni. Á það var ekki fallist. Ég tel að þessi lækkun greiðslna úr fæðingarorlofssjóði sé miklu alvarlegri og komi við miklu fleira fólk en umrætt þak gerir. Þar að auki er tekjulágt fólk miklu viðkvæmara fyrir sveiflum í tekjum en hinir tekjuháu. Í raun og veru ætti það að vera forgangsverkefni að ná greiðslunum upp í 100% fyrir þá sem hafa meðaltekjur eða eru þar fyrir neðan.

Þá er rétt að nefna það hróplega ranglæti sem er í því fólgið að tekjulágt fólk á almennum vinnumarkaði fær ekki greitt orlof að loknu fæðingarorlofi. Auðvitað má segja að það sé atvinnurekandans að axla þessa byrði en á meðan ekki nást samningar um slíkt væri rétt að sjóðurinn stæði straum af þessum kostnaði. Það getur ekki hafa verið ætlun manna að fæðingarorlofsrétturinn æti upp sumarorlofið. Ég þekki dæmi þess að lágtekjufólk hafi ekki komist í sumarfrí eftir að hafa verið í fæðingarorlofi. Stjórnarandstaðan flutti breytingartillögu til að fá þetta lagað og var hún byggð á frumvarpi sem ég hafði flutt.

Þá er þess að geta að öryrkjar og þeir sem eiga rétt til umönnunargreiðslna vegna sjúkra barna missa rétt sinn í fæðingarorlofi. Hér er á ferðinni mikið ranglæti sem verður að leiðrétta.

Sem áður segir eru rökin fyrir því að setja ekki þak á fæðingarorlofsgreiðslur góðra gjalda verð – en að mínu mati eru aðrir þættir í fæðingarorlofslöggjöfinni miklu framar í forgangsröðinni um úrbætur.