Fara í efni

HÚSNÆÐI ER FYRIR HENDI!

Sæll Ögmundur.
Sendi þér þessa ábendingu um að aflagðir heimavistarskólar gætu vel hentað til fangavistar. Í heimavistarskólum geta herbergi verið fangaklefar. Þar eru nægilega mörg salerni, baðaðstaða fyrir marga, eldhús, mötuneyti og oftast íþróttahús og jafnvel sundlaug. Ennfremur eru þar oft starfsmannahús og íbúðir. Ég hef skoðað nokkra eldri heimavistarskóla. Get ekki ímyndað mér annað en að séu þægilegri, og rýmri, húsakynni en t. d. á Skólavörðustíg. Auk þess er umhverfi þeirra allra skemmtilegra að öllu leyti. Þeir fangar sem ekki þurfa stranga öryggisgæslu væru mun betur komnir á slíkum stað en í flestum okkar núverandi fangelsum.
Viggó Jörgensson

Sæll og þakka þér fyrir bréfið. Það er búið að fara mjög vel yfir einmitt þetta, hvort hægt væri að nota eldra húsnæði. En þú hittir naglann á höfuðið undir lok bréfsins þar sem þú nefnir öryggisþáttinn. Hér er fyrst og fremst verið að tala um gæsluvarðhalds- og öryggisfangelsi. Hugsunin er sú að afplánun fari fram annars staðar og þar er fyrst og frsmt horft til LitlaHrauns.
Framtíðar - fjárhagshagmunir snúast ekki um bygginguna fyrst og fremst heldur reksturinn. Fangelsi á tveimur hæðum kallar til dæmis á tvær varðstofur en ekki eina. Þetta er eitt af því sem mér hefur verið bent á og snýr að rekstrarkostnaði. Nýtt fangelsi yrði teiknað með rekstrahagkvæmni í huga.
Kv.
Ögmundur