Fara í efni

HUNDRAÐ PRÓSENT BORUBRATTUR MEÐ ÞRJÚ PRÓSENT FYLGI

“Ég leyni því ekki að ég vildi sjá hærri fylgistölur,” segir foringi Framsóknar í komandi borgarstjórnarkosningum á heimasíðu sinni. Þessi djúphugsuðu og hófstilltu ummæli Björns Inga Hrafnssonar eru óneitanlega dálítið brosleg þegar tekið er mið af því fylgi sem skoðanakannanir eru að skila flokknum þessa stundina. Mælingar sýna ekki nema 3% fylgi og varla mundi nokkur alvöru frambjóðandi gerast svo djarfur að reyna að leyna því að hann vildi sjá í það minnsta örlítið “hærri fylgistölur”. En það þarf enginn að efast um þá staðreynd að Björn Ingi er alvöru frambjóðandi sem þykist vita að fylgið getur varla farið nema upp á við þegar það er á sögulegu bólakafi eins og nú er raunin. Réttilega segist hann líka vita af fenginni reynslu að það sé óskynsamlegt að taka skoðanakannanir of alvarlega, taka verði með í reikninginn hina mögnuðu kosningamaskínu Framsóknarflokksins. Björn Ingi segir um þá undravél – og það að líkindum einnig með réttu ef tekið er mið af undanförnum gósen-áratug flokksins í ríkisstjórn - að reynslan sýni “einfaldlega að í kosningabaráttu standast fáir framsóknarmönnum snúning og þá koma hinir sterku innviðir flokksins vel í ljós.”

Gaman væri nú að Björn Ingi mundi upplýsa kjósendur aðeins meira um “innviðina sterku” sem munu fjármagna yfirvofandi auglýsingaherferð sem nú er á teikniborðum ímyndarhönnuðanna, herferðina sem á að fleyta honum inn í borgarstjórn með góðu eða illu. Já, gaman væri ef hann reyndist eins hreinskilinn í tali um hina gullnu innviði, sem sjá kosningavélinni fyrir óþrjótandi eldsneyti, eins og þegar hann tjáir sig um fylgi við framboð sitt í skoðanakönnunum. Eitt er víst að uppflosnaðir sauðfjárbændur munu ekki borga brúsann og ekki heldur almennir félagsmenn í félögum flokksins í Reykjavík. Þvert á móti munu sterkefnaðir einstaklingar og fyrirtæki sjá um kostun Björns Inga inn í borgarstjórn Reykjavíkur. Og á meðan að borgarforinginn títtnefndi upplýsir ekki sjálfur um nöfn og númer kostunaraðila sinna er meira en óhætt að gefa sér að þar eru fremst í flokki þau fyrirtæki og þeir einstaklingar sem mest og best hafa grætt á tá og fingri í tíð ríkisstjórnarsamstarfs Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokks. Og í því dýrðarinnar ljósi og æðislega peningaflóði þarf engan að undra að borgarforinginn Björn Ingi Hrafnsson gangi enn um sinn með 100% bratta boru þótt fylgið lafi í einhverjum þremur prósentum þegar tæpir tveir mánuðir eru til kjördags. Óskandi er hins vegar fyrir alla þá sem lýðræðinu unna að peningaöflum Framsóknarflokksins takist ekki það ætlunarverk sitt að selja Reykvíkingum þennan mjaltadreng sinn og koma honum fyrir í stjórnkerfi borgarinnar. Svo mikil er spillingin á landsvísu að það væri að bera í bakkafullan lækinn að stofnfesta hana einnig í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Þjóðólfur