Fara í efni

Hugsunarleysi fréttamanna?

Fréttastofur RÚV fjölluðu í gærkvöldi um hugmyndir talsmanna "atvinnulífsinis" um skattamál. Rætt var við fulltrúa ASÍ og SA. Fulltrúi ASÍ varaði eindregið við skattalækkunum vegna Kárahnjúkaþenslu. Slíkt ætti ekki að vera á döfinni næstu árin. Nokkuð sakna ég að þessi umræða skyldi ekki hafa farið fram fyrir kosningar, að ekki sé nú minnst á að hún færi fram áður en ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var tekin. Nú vill svo til að eini aðilinn á vinnumarkaði sem sett hefur fram ítarlegar hugmyndir um skattkerfisbreytingar síðustu misserin er BSRB. Þær tillögur fela það í sér að tekjustofnar almannasjóða kæmu ekki til með að skerðast en ráðstöfunarfé lágtekju- og millitekjuhópa ykist hins vegar til muna.

Samkvæmt kenningum fyrrgreindra talsmanna væri óráðlegt að auka ráðstöfunarfé þjóðarinnar vegna þensluvaldandi áhrifa á sama tíma og Kárahnjúkaframkvæmdir standa yfir. Nú ætla ég að leyfa mér að spyrja: Finnst okkur rétt að alhæfa á þennan hátt um þjóðina? Hlýtur það ekki að vera afstaða samtaka launafólks að leita allra leiða til að stórauka ráðstöfunarfé láglaunafólks? Öðru máli kann að gegna um hátekjufólk; það kynni að vera réttlætanlegt að slá á eyðslu þess.

Hvers vegna leita fréttastofur Ríkisútvarpsins ekki til eina aðilans sem sett hefur fram skattatillögur á undanförnum misserum? Er þetta hlédrægni af hálfu Ríkisútvarpsins eða er þetta hugsunarleysi? Varla er það ásetningur að ganga fram hjá stærstu heildarsamtökum starfsfólks í almannaþjónustu þegar leitað er álitsgjafar af þessu tagi.