Fara í efni

Hugrenningar í kjölfar DV leiðara

Jónas Kristjánnsson, fyrrum ritstjóri DV skrifar reglulega leiðara í DV. Skrif hans eru jafnan beitt  og vekjandi. Sérstaklega umhugsunarverður þótti mér leiðari hans síðastliðinn föstudag. Þar vék hann að hræringum á lánamarkaði og hugleiddi þær grundvallarbreytingar sem orðið hefðu í samfélaginu á síðustu árum. Fjármagn sem hefði verið af skornum skammti elti nú fólk á röndum eða með orðum Jónasar þá “ráfar” það “um banka og sjóði í leit að skuldurum.” Leiðari Jónasar ber yfirskriftina “Eign eða áskrift.” Hann sýnir fram á hvernig þjóðfélagið sé að breytast að því leyti að fólk sé hætt að vilja eða geta eignast hluti heldur gangi nú allt út á afnotin: Þú færð afnot af símtóli en greiðir fyrir afnotin. Sama sé smám saman farið að gilda um aðra þætti, sjónvarpið, bílinn, búslóðina, íbúðina, jafnvel fötin, ”allt út á föst viðskipti við tiltekinn aðila í tiltekinn tíma.” Þess sé ekki langt að bíða að þetta gildi um alla hluti sem við þurfum á að halda.: “Við þetta verður ekki ráðið. Mikið framboð á ódýru lánsfé er orðið að náttúrulögmáli. Ennfremur er ljóst að til sögunnar eru komnar kynslóðir, sem líta öðrum augum á dauða hluti en fyrri kynslóðir. Þær nýju kæra sig ekki um að eiga hluti á þurru, eru bara að kaupa sér afnot eða áskrift eða aðgang.” Jónas segir að menn þurfi “að læra að umgangast þetta nýja kerfi og átta sig á, að miklu meira borð þarf að vera fyrir báru en í fyrra kerfi, svo að ekki fari allt á hvolf, þegar hvessir.” Niðurstaða Jónasar Kristjánssonar er sú, að Íslendingar séu að færast á milli tímabila í hagsögunni: “Að loknum eignatíma er kominn áskriftar- eða afnotatími.”

Ég held að þetta sé hárrétt hjá Jónasi Kristjánssyni. Í þessu felast í senn kostir og ókostir. Það er fólgið frelsi í því að vera ekki háður áfergjunni í að eignast. Ef okkur tekst hins vegar ekki að beisla neysluágirndina er til lítils unnið. Enda getur þá svo farið að fólk verði þrælar að nýju, algerlega háð þeim aðilum sem sjá því fyrir öllum nauðsynjum lífsins. Auðvitað veitir eignarhald á frumnauðsynjum frelsi og vald. Það á við um hvern þann sem eignina á, hvort sem það er notandinn eða veitandinn. Menn geta stýrt eign sinni. Svo einfalt er það.

Heimasíða Jónasar Kristjánssonar:  http://jonas.is/
Greinin sem hér er gerð að umtalsefni er hér.