Fara í efni

HUGLEIÐING Í TILEFNI ÞJÓÐNÝTINGAR Í RÚSSLANDI

Á valdatíma Jeltsins Rússlandsforseta var einkavætt af miklum móð í Rússlandi. Ekki nóg með það, ýmsir nánir samstarfsmenn forsetans og þeirra fylgilið sölsaði einkavæddar eignir ríkisins undir sig og fóru þar framarlega í flokki Khodorkovskí, sem nú hefur verið sakaður um stórkostleg skattsvik og annað misferli og situr fyrir bragðið í fangelsi, Berzovsky sem hröklaðist í útlegð og Abramovits, eigandi fótboltaliðsins Chelsea og vinur ónefnds búanda á Bessastöðum á Álftanesi (sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/vondum-val-a-vinum).

Nú eru rússnesk stjórnvöld að reyna að ná einhverju af hinum stolnu eignum til baka til þjóðarinnar. Fyrir nokkrum dögum var skýrt frá því að ríkisolíufélagið Rosneft (sem er í eigu ríkisins og var sjöunda stærsta olíufyrirtækið í Rússlandi) hefði keypt allt hlutafé í fjármögnunarfyrirtækinu Baikal Finance Group. Þar með væri burðarásinn í Yukos, dótturfyrirtæki Yuganskneftegas, komið í ríkiseigu en Baikal keypti það fyrir nokkrum dögum. Þá hefur einnig verið tilkynnt, að Rosneft og ríkisgasfyrirtækið Gazprom verði sameinuð. Í raun er um að ræða fyrstu endurþjóðnýtinguna eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur. Talsmaður Rosneft segir að með sameiningunni við Gazprom (sem nú er stærsta gasvinnslufyrirtæki í heimi) sé stefnt að því, að nýja fyrirtækið verði "alhliða orkufyrirtæki í eigu ríkisins" (sjá frétt Morgunbl. Frá 24.des. sem byggir á AFP fréttastofunni).

Í þessum fréttum kemur fram að lögfræðingar Yukos hafi brugðist við  með því að hóta að höfða mál á hendur Rosneft, jafnt í Rússlandi sem í öðrum löndum. Búist hafði verið við, að Gazprom byði í Yuganskneftegas á uppboði um síðustu helgi en lögfræðingar Yukos fengu sett bann við því hjá dómara í Houston í Texas. Valerí Nesterov, sérfræðingur hjá miðlarafyrirtækinu Troika Dialog, segir að aðferðin, sem rússnesk stjórnvöld hefðu notað til að komast yfir Yuganskneftegas, hefði einmitt verið hugsuð til að komast hjá útistöðum við bandarískt réttarkerfi. "Hjá Gazprom áttuðu menn sig á því á síðustu stundu, að ríkisstjórnir eru fullvalda en fyrirtæki á alþjóðlegum markaði verða að taka tillit til lagaumhverfis erlendis," er haft eftir Nesterov. Lögfræðingar Yukos segjast munu fara fram á 20 milljarða dollara, 1.250 milljarða ísl. kr., skaðabætur fyrir söluna á Yuganskneftegas.

Þrennt er umhugsunarvert við þessa frétt. Í fyrsta lagi að rússnesk yfirvöld skuli vera farin að sjá að sér og reyni nú að ná til baka stolnum þjóðareignum. Í öðru lagi að þjófarnir skuli ætla að fara fram á skaðabætur fyrir að vera sviptir ránsfeng sínum. Í þriðja lagi að “fullvalda ríki” eigi orðið erfitt um vik að framfylgja lýðræðislegum vilja. Smám saman er verið að alþjóðavæða reglur og lög. Yfirleitt er þetta framkvæmt á forsendum markaðsvæðingar og er eignarréttur þar þungamiðja; ekki eignarréttur almennings heldur einstaklinga – manna á borð við þá félaga Khodorkovskí, Berzovsky og Abromivitch. “Réttur” þessara manna er nú varinn í dómshúsinu í Houston í Texas jafnvel þótt þar séu á ferðinni einhverjir verstu svikahrappar síðari tíma. Lögmál kapitalismans gerast þannig sífellt fyrirferðarmeiri á kostnað lýðræðis og almannavilja.