Fara í efni

HROKAFULLT PRÓFGRÁÐUMANNATAL


Íslenska þjóðarbúið á óneitanlega við erfiðleika að stríða. Í landinu geisar óðaverðbólga og óvissa  er um þróun efnahagsmála.  Þegar berast fréttir af gjaldþrotum og atvinnuleysi. Við þessar aðstæður sömdu helstu samtök launafólks um jafna krónutöluhækkun á laun. Slíkt kemur sér  best fyrir hina lægst launuðu. Hlutfallslega fá þeir meira en þeir sem hafa hæstu launin. Verkefnið við þessar aðstæður er að verja kjörin. Í því skyni var reynt að reisa hæstu varnarmúrana fyrir þá sem minnst hafa.

Menntun er ekki óskilyrt ávísun

Þetta geta læknar ekki fellt sig við. það er að segja þeir sem mest hafa. Þeir hafa nú fengið því áorkað að kjarasamningur með krónutöluhækkun hefur verið felldur. Unglæknar hafa harmað þessa niðurstöðu enda þeir með lægstu launin. Talsmenn hálaunalækna segja niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning fela í sér skýr skilaboð: Meirihluti lækna vilji að menntun þeirra sé metin að verðleikum. Svipaðir tónar hafa heyrst frá ýmsum hópum háskólamenntaðra að undanförnu. Þeir tala með fyrirlitningu um tilraunir til að jafna kjörin.
Slíkt tal hljómar ekki  sérlega vitiborið í mínum eyrum. Læt ég þá réttlætið liggja á milli hluta. Langskólamenntað fólk verður að skilja að menntun er ekki og á ekki að vera óskilyrt ávísun á miklu betri kjör en þeir njóta sem búa yfir minni skólamenntun. 

Um gildi starfanna

Sjálfsagt er að taka viðmið af kostnaði vegna námslána. Lengra nær mín samúð ekki. Vissulega á heilaskurðlæknirinn að hafa bærileg laun. En það gildir líka um starfsmanninn sem hjálpar ósjálfbjarga einstaklingi að komast í gegnum daginn - og nóttina, þótt sá hafi ekki jafnlangt nám að baki og hinn sem mundar skurðhnífinn.
Menntun segir ekki allt um gildi starfa. Þá síður um hve erfið störf eru eða þakklát. Hrokatal er "menntafólki" eða  "prófgráðufólki" hvorki til sóma né er það því til framdráttar. Það vita þeir sem best eru menntaðir - og upplýstir. Þeir tala af hógværð. Þeir vita hvers virði réttlátt þjóðfélag er. Kannski er það í þessu sem munurinn liggur á menntamanni annars vegar og prófgráðumanni  hins vegar.