Fara í efni

HÖFÐINGINN

Hann situr á stalli og dregur sér djásnin í vé
og daglega slátrar hann andlausu hyski,
hann lifir á smjaðri, fer illa með annarra fé
svo etur hann jafnan af nágrannans diski.

Brosandi varir, í augum er skelfingin skýr,
í skynhelgi lífsins hann stendur svo keikur
og víst er það augljós að hatur í hugskoti býr
er höggormsins tunga um varir hans leikur.

Hann lofaði sjálfur þá alla sem áttu hér mest
hann ýtti frá landinu drekkhlöðnu skipum
með mönnum sem þráðu upphefja bjargræðið best
og byggðu allt traust sitt á verðmætum gripum.


Er víkingar héldu með eldmóð um ónumin lönd
þá útþráin reyndist þeim máttur í stafni,
þeir fóru með glýju í augum frá ströndu að strönd
og stunduðu kaup sín í höfðingjans nafni.


Til erlendra stranda hver háseti höfðingjans fór
og höndum var slegið á dýrgripi marga
en skipanna farmur var auðvitað aðeins og stór
og eignunum náðu menn varla að bjarga.

Og þegar þeir komu til baka með brotin sín fley
hann brosti í kampinn og laug að þeim öllum,
hann gaspraði mikið og hýddi þau huglausu grey
sem höfðu þó farið að ráðum hans snjöllum.

Skipverjar munu nú hljóta hér háðung og smán
er höfðingjans boðskapur fallvaltur reynist,
hann lofar hvern dýrgrip sem víkingar verða nú án,
hann veit ekki sjálfur hvar réttlætið leynist.

Kristján Hreinsson, skáld