Fara í efni

HLUTAFÉLAGAVÆÐING GEGN STARFSFÓLKI

Birtist í Morgunblaðinu 09.01.07.
Þegar fram kom á Alþingi lagafrumvarp um að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir á Keldnaholti og rannsóknarstofa Umhverfisstofnunar yrðu sameinaðar og gerðar að hlutafélagi mótmælti BSRB þeim áformum á ýmsum forsendum. Það breytti ekki því að málið gekk eftir og hlutaféð í hinni nýju stofnun, sem kallast Matís ohf., er eins og svo oft áður allt á hendi ríkisins. Starfsmenn eru því strangt til tekið eftir sem áður í þjónustu þess en sá böggull fylgir skammrifi að mikilvægum réttindamálum þeirra, sem sum hver kostuðu áratuga baráttu, er nú stefnt í voða.

Réttindi skert

 

Í umsögn BSRB um frumvarpið á sínum tíma var m.a. bent á að það sem fyrst og fremst kæmi til með að breytast væru réttindi starfsmanna. Þau væru betur tryggð hjá ríkinu en á hinum almenna vinnumarkaði. Sem dæmi mætti nefna lífeyrisréttindi, veikindarétt og slysa- og örorkubætur. Þá mundu ákvæði um áminningarskyldu og andmælarétt við uppsagnir ekki lengur gilda. Að auki nytu opinberir starfsmenn í fæðingarorlofi t.a.m. réttinda til greiðslu sumarorlofs, persónu- og orlofsuppbótar samkvæmt samningi sem BSRB hefði staðið að. Niðurstaða samtakanna um réttindamálin var í stuttu máli eftirfarandi: "Með frumvarpi þessu verða áunnin samningsbundin réttindi starfsmanna skert allverulega og áunnin samningsbundin eign sem hluti af launakjörum ríkisstarfsmanna, gerð upptæk. [...] Engin trygging er fyrir því að hve miklu leyti stjórnendur hins nýja félags eru tilbúnir að varðveita núverandi starfskjör þegar nýr ráðningarsamningur verður gerður við starfsmenn eða þegar komið er að því að gera nýjan kjarasamning."
Þessi niðurstaða var í samræmi við efni frumvarpsins en í kafla 7.6 um starfsmannamál sagði m.a.: "Breytingar á rekstrarformi ríkisfyrirtækja hafa veruleg áhrif á starfsmannamál. Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalög), taka ekki til starfsmanna sem starfa hjá félögum einkaréttarlegs eðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins. Starfsmenn Matvælarannsókna hf. munu ekki heyra undir þá kjarasamninga sem ríkið á aðild að."

Vinnubrögðum áfátt

 

BSRB og aðildarfélög bandalagsins hafa nú orðið talsverða reynslu af hlutafélagavæðingu. Almennt hafa heildarsamtökin litið á þessa þróun sem illan kost, jafnt fyrir opinbera starfsmenn sem samfélagið í heild. Reynslan sýnir á hinn bóginn að vinnubrögð við hlutafélagavæðingu eru mismunandi. BSRB hefur jafnan lagt áherslu á að gengið sé til samninga áður en breytingar eiga sér stað þótt ekki sé til annars en búa til almennan ramma um kjaramál til framtíðar sem báðir samningsaðilar geta sætt sig við. Það hefur iðulega verið gert.
Hvað Matís ohf. áhrærir hefur þetta margsinnis verið ámálgað við ráðherra og stjórn hins nýja hlutafélags. Í umsögn BSRB um frumvarpið sagði að samtökin legðu "mikla áherslu á að tryggt verði að Matvælarannsóknir virði rétt stéttarfélaga starfsmanna sem gera kjarasamninga f.h. félagsmanna sinna, til að semja áfram við hlutafélagið, verði það að veruleika, bæði fyrir hönd núverandi starfsmanna og nýráðinna. Við rekstrarformsbreytingu ríkisstofnana sl. ár hafa stéttarfélög sem eiga félagsmenn innan þeirra stofnana haldið áfram að gera kjarasamninga við hlutafélögin sem stofnuð hafa verið. Sama ætti að gilda um stéttarfélög innan Matvælarannsókna."

Þjarmað að starfsfólki

 

Ekki er nóg með að þessi beiðni hafi verið algerlega hunsuð heldur hefur stjórnarformaður hins nýja hlutafélags lýst því yfir á fundi með starfsmönnum að stjórnin sé lítið gefin fyrir samskipti við stéttarfélög! Um hátíðirnar bárust svo fréttir af atgangi forsvarsmanna nýja félagsins gagnvart starfsfólki. Margir starfsmenn voru þá króaðir af og gert að skrifa undir ráðningarsamninga sem eru vægast sagt vafasamir.
Enginn þarf að velkjast í vafa um að hlutafélagavæðing opinberra stofnana er fyrst og fremst til þess að skerða réttindi starfsfólksins. Um opinberan rekstur hafa verið sett ýmis lög í áranna rás til þess að tryggja jafnræði, opna og gagnsæja stjórnsýslu og eðlilega ráðstöfun skattfjár. Ef þessi lög eru talin vera til óþurftar, hvers vegna er þá ekki gengið hreint til verks og þau afnumin? Hvers vegna þennan loddaraleik sem hlutafélagavæðingin er? Og hvers vegna er það einfaldlega ekki sagt opinskátt að til standi að hafa umsamin kjör af starfsfólki?
Nú þegar aðför verður að nýju gerð á Alþingi að Ríkisútvarpinu munu sjónir manna ekki einungis beinast að ráðherrum og ríkisstjórn heldur hverjum einasta alþingismanni sem lætur hafa sig í það að skerða réttindi launafólks og gerast handbendi gamaldags atvinnurekendavalds.