Fara í efni

HJÁLMAR SETJIST VIÐ SKRIFTIR

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, á það til að taka nokkuð stórt upp í sig. Það væri í lagi ef hann væri ekki jafnframt mjög seinheppinn maður. 22.maí sl. segir hann á heimasíðu sinni: “En nú rifjast líka upp í huga manns öll gífuryrðin sem fallið hafa á Alþingi og í fjölmiðlum um mál þetta. Það eru engin smáyrði sem Lúðvik Bergvinsson, Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. hafa látið falla um sölu Símans. "Helmingaskipti", "Spilling", "Gjafir." Þetta eru kunnugleg orð úr börkum strigakjafta. Og nú hljóta þeir að hafa þá sómakennd að færa einhver minnstu rök fyrir fullyrðingum sínum.”

Nokkrum dögum síðar hóf Fréttablaðið birtingu greina sem aðstoðar okkur félagana, sem Hjálmar Árnason nafngreinir, að finna stað ásökunum um það sem hann nefnir réttilega helmingaskipti, gjafir og spillingu. Nú má vera að hörð gagnrýni innan þings og utan hafi valdið því að jafnvel Framsóknarflokkurinn hafi óttast að ganga eins langt og oft áður varðandi einkavæðingu Símans. Þó var það nú svo að félagarnir tveir, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, “handsöluðu” samkomulag um söluferli Símans (skv. Frétt Mbl.2. apríl sl.) þvert á ráðleggingar Morgan Stanley, ráðgjafafyrirtækisins, sem “ráðleggur” ríkisstjórninni um þetta ferli fyrir ærið fé!

Í gær kom Finnur Ingólfsson, fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, fram í Kastljósi Sjónvarpsins og reyndi að hvítþvo Framsókn. Því miður er Framsóknarflokkurinmn orðinn skítugri en svo að gera megi hann hreinan með fullyrðingum um hið gagnstæða í einum sjónvarpsþætti. Allra síst úr barka Finns Ingólfssonar. Það segi ég ekki af óvirðingu við þann mann. Þvert á móti. Finnur er duglegur maður og kraftmikill og á kafi í öllu innra starfi Framsóknar og öllu sem þeim flokki tengist um áratugaskeið. Finnur er gerandi en ekki verandi. Ekki hljómar það sannfærandi að hann hafi setið auðum höndum uppi í Seðlabanka, eins og hann gaf í skyn, á meðan Halldór Ásgrímsson sat á fundum um hvernig koma mætti málum þannig fyrir, að “okkar fyrirtæki” eins og Valgerður Sverrisdóttir bankamálaráðherra nefndi einhverju sinni fyrirtæki sem Framsóknarmenn réðu, fengju feitustu bitana. Nei Finnur, ekki hljómar þetta sannfærandi: Að allt í einu og af einskærri tilviljun hafi verið búið að skáka VÍS út úr Landsbankanum, forstjórastóll þar settur undir volgan varaformann Framsóknarflokksins en að því búnu færi fyrirtækið, væntanlerga einnig fyrir tilviljun, í slagtogi með “Framsóknarfyrirtækjum” í kaup á Búnaðarbankanum. Nú upplýsir Fréttablaðið að Halldór Ásgrímsson hafi hótað að stöðva allt einkavæðingarferlið gengi það ekki eftir að Framsókn fengi sinn skerf. Það eina sem ég tel að gæti staðist í hneykslan Hjálmars Árnasonar yfir ásökunum um helmingaskipti er að þetta kann að vera ósanngjarnt í garð Sjálfstæðisflokksins. En hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn hugsaði sölu bankanna á þröngum flokksgæðingaforsendum, (sem ég reyndar efast um) þá er hitt öruggt og hefur fengist staðfest að það gerði Framsóknarflokkurinn.

Fréttablaðið á mikið lof skilið fyrir vasklega framgöngu, og þá sérstaklega Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrir rannsóknarfréttamennsku sína. Ég er hins vegar hræddur um að Hjálmar Árnason þurfi að klóra sér svolítið í höfðinu, maðurinn sem fór hörðum orðum um gagnrýni okkar stjórnarandstöðuþingmanna á þau atriði sem Fréttablaðið hefur nú gert að ítarlegu umfjöllunarefni og sýnt fram á að ásakanir okkar voru á rökum reistar. Í fyrrenfndum pistli sínum dró Hjálmar hvergi af sér í hneyksaln yfir okkar framgöngu og klykkti út með eftirfarandi: “Eitt er að takast á um málefni og annað að grípa til þeirra óþverrabragða sem byggja á dylgjum og óhróðri. Hafi áðurgreindir þingmenn einhverja sómakennd ættu þeir að biðjast afsökunar á orðum sínum. Heldur þykir mér þó ólíklegt að svo verði.”
Það er rétt niðurstaða hjá Hjálmari. Ekki er ætlunin af okkar hálfu að biðjast afsökunar enda ekki ástæða til. Sú spurning á hins vegar erindi við Hjálmar Árnason, hvort hann þurfi ekki að biðja einhvern afsökunar. Ég hvet þingflokksformann Framsóknar til að setjast við skriftir. 

Pistill Hjálmars Árnasonar

Samþykkt Þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs 30.050.5