Fara í efni

Hernaðaráform Bandaríkjanna

Sæll og blessaður. Á ekkert að mótmæla kröftuglega í sambandi við Írak? Ég er ekki sáttur við að Ísland styðji þessa stríðsóðu þjóð sem kallar sig þjóð friðar, USA, sem einnig styður fjöldamorð í Palestínu? Hvað er að okkar ráðamönnum?
Tóti

Ég er þér sammála um að þörf er á að mótmæla kröftuglega hernaðaráformum Bandaríkjamanna í Írak og einnig ofbeldi og mannréttindabrotum sem framin eru á Palestínumönnum. Hins vegar finnst mér að við eigum að gera skýran greinarmun á bandarísku þjóðinni annars vegar og bandarískum stjórnvöldum hins vegar. Bandaríkjastjórn virðist í einu og öllu ganga erinda auðvalds og hernaðarhagsmuna, sem þegar allt kemur til alls, eru ekki í samræmi við hagsmuni bandarískrar alþýðu. Það er kostulegt að fylgjast með því hve langt bandarískir ráðamenn ganga í tvískinnungi sínum. Þannig var Rumsfeld núverandi varnarmálaráherra og einn helsti stríðshaukurinn nú um stundir, milligöngumaður bandarískra og íraskra stjórnvalda í byrjun níunda áratugarins í þann mund sem Saddam Hussein var að koma sér upp efnavopnum en búnaðurinn til þeirra vopna kom frá bandarískum fyrirtækjum samkvæmt upplýsingum sem rannsóknarnefnd Öldungadeildar bandaríkjaþings hefur leitt í ljós. Á þessum tíma hentaði það bandarískum stórkapitalistum að styðja Íraka gegn klerkaveldinu í Íran en sem kunnugt er geisaði styrjöld á milli Íraka og Írana á níunda áratug tuttugustu aldarinnar. Þá var Saddam Hussein “góður skúrkur”, eins og Henry Kissinger orðaði það einhverju sinni og átti að sjálfsögðu við að hann gagnaðist bandarískum hagsmunum þótt ekki væri hann fínn pappír. Nú stendur hann hins vegar í vegi fyrir bandarískum hernaðar- og olíuhagsmunum og þá skal hann settur af hvað sem tautar og raular og hverjar sem afleiðingarnar verða fyrir írösku þjóðina. Hótunum Bandaríkjastjórnar um hernaðarofbeldi ber að mótmæla kröftuglega. Undir það tek ég með fyrirspyrjanda.