Fara í efni

MEIRA UM STÉTTASKIPTINGU

Ég skrifaði fyrir nokkrum dögum grein hér á síðuna og nefndi að af umræðu fjölmiðla mætti ætla að þjófélagið væri nú orðið fremur kynskipt en stéttskipt. Ég vakti athygli á ágætum árangri femínista og áhugafólks um jafnrétti kynjanna í því að kynna viðhorf sín og tók fram að ég fagnaði árangri kvennanna, þótt enn væri mikið óunnið á þessu sviði. Ég vék að því að svo góður væri árangurinn að stéttamisrétti væri miklu minna rætt í fjölmiðlum en kynjamisrétti, gat þess líka að ýmsir hópar karla færu ekki vel út úr tilverunni og spurði meðal annars hvað yrði af öllum þeim fjölda stráka sem féllu út úr skólunum, en þeir eru að mig minnir ca. þriðjngi fleiri en stelpurnar.

Þessar sakleysislegu vangaveltur mínar virðast hafa farið einkennilega í vin minn Pál Hannesson sem svaraði og sakar mig um að horfa á málin af þröngum sjónarhóli (sem er kallað að vera þröngsýnn) og kenna líka femínistum og jafnréttissinnum um að stéttaskipting sé ekki á dagskrá., (má mikið vera ef ég á ekki að hafa kennt þeim um stéttaskiptinguna). Þar að auki verður ekki annað ráðið af grein Páls en að vandamál karla, sem ég gat um, séu varla umræðuverð, þegar stóru málin jafnrétti kynjanna (les: bætt staða kvenna) séu annars vegar. Hann staðhæfir líka að góður árangur á einu sviði jafnréttisbaráttunnar sé hvetjandi fyrir baráttuna á öðru sviði – gangi konum vel hljóti lágstéttunum að ganga vel líka. Femínistar og jafnréttissinar hljóti að vera samherjar jafnaðarmanna allir vilji betra þjóðfélag og mér væri nær að líta á þá sem samherja fremur en að egna fólk hvert gegn öðru.

Ekki dettur mér í hug að ég geti egnt nokkurn mann til nokkurs hlutar, enda ætla ég mér ekki þá dul. Ég ætla heldur ekki að deila við Pál um þá einkunnagjöf að ég sé þröngsýnn, en það er ekkert leyndarmál að ég er sósíalisti og jafnaðarmaður og hef verið það frá því ég fór að taka eftir stjórnmálum, líklega fyrir fermingu. Það þýðir að ég tek eftir mismunun stéttanna í samfélaginu á undan mismunun kynjanna, þar að auki finnst mér að þessi afstaða hjálpi mér heldur en hitt til að sjá misrétti kynjanna. Ég lít ekki svo á að það sé sprottið af því að karlar séu vondir við konur heldur afleiðing og fylgifiskur stéttaskiptingarinnar og misskiptingar auðsins.

Ég er þess vegna gersamlega ósammála Páli Hannessyni um að allir femínistar hljóti að vera bandamenn vinstrisinna/jafnaðarmanna um að koma á betra þjóðfélagi. Þannig eru til hópar femínista sem jafnframt eru til hægri í stjórnmálum, frjálshyggjumenn. Þeirra áhugi á jafnrétti kynjanna felst ekki síst í því að konur komist að kjötkötlum valds og eigna til jafns við karlana,  en það er ekkert í viðhorfum þeirra sem bendir til skilnings á stéttaskiptingunni eða erfiðri stöðu lágstéttanna. Að konur sem stjórnendur eða stjórnmálamenn verði endilega betri og meiri jafnréttissinar og skapi betra þjóðfélag en karlmenn er í besta falli ósannað.  Ekki dugði það breskum fátæklingum vel að fá yfir sig Margréti járnfrú, ekki heldur konum sérstaklega. Hún aðhylltist frjálshyggjukenningar og gekk hart fram í því að breyta þjóðfélaginu í samræmi við þær, til stórrrar bölvunar fyrir þá sem illa voru staddir fyrir. Hún var í pólitísku ástarsambandi við Ronald Reagan Bandaríkjaforseta, sem vann sér það meðal annars til frægðar að spara í heilbrigðiskerfinu með því að loka mörgum stofnunum fyrir geðsjúka og stugga sjúklingunum út á götuna – í bókstaflegri merkingu.

Sá sem ekki sér að ýmsir hópar karla hafa orðið útundan í samfélaginu, ekki síður en margar konur, hann tekur ekki eftir því sem gerist í kringum hann. Konur eru sem betur fer oftast félagslega duglegar og ekki jafn ragar og karlmenn að viðurkenna erfiða stöðu sína. Karlmenn sem detta út úr samfélaginu vegna veikinda einangrast yfirleitt á enn grimmilegri hátt en konurnar. Þess vegna væri áreiðanlega þarft verk fyrir Öryrkjabandalagið að kanna hvort ekki sé möguleiki á að mynda hóp langveikra karla, rétt eins og það hefur nýlega beitt sér fyrir stofnun hóps langveikra kvenna.

Með tímanum hefur skilningur minn á kapitalismanum breyst. Framan af trúði maður því að frelsa mætti verkalýðsstéttina undan oki auðvaldsins með því einu að sósíalistar fengju völdin. Þá litu flestir sósíalistar á verkalýðsstéttina sem einsleitan hóp – allir í hópnum hefðu sömu hagsmuni, jafnvel sömu áhugamál. Við vorum ekki miklir einstaklingshyggjumenn á þeim árum. Nú sér maður af langri reynslu að það skiptir miklu í kapítalísku samfélagi að einstakir hópar þeirra sem illa eru settir geti bætt stöðu sína og eins og fyrri daginn eru það hóparnir sjálfir sem verða að gera það. Þetta sjáum við til dæmis vel í árangri Öryrkjabandalagsins, þó ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs hafi svo sannarlega lagt sig fram um að gera bandalaginu erfitt fyrir. (Í gamla daga hefðu félagarnir sakað mann um hroðalega hentistefnu og sagt með þjósti: þú vilt bara setja plástur á kapítalismann!)

Ríkisstjórnum þeirra félaga hefur tekist frábærlega upp í því að auka á misskiptinguna í samfélaginu. Ríkir eru orðnir miklu ríkari og láglaunavandamálið hefur að talsverðu leyti verið leyst með því að fá inn erlent vinnuafl, sem möglar ekki. Þjóðareignir hafa verið „seldar” fáum auðmönnum, sem sýnast jafnvel valdir fyrirfram úr svokölluðum „bjóðendum”. Nú á að selja Símann, sem með hagnaðinum einum saman myndi standa undir öllum þeim stórframkvæmdum sem menn þykjast ætla að ráðast í fyrir verðið. Yfirgnævandi meirihluti kjósenda er á móti sölunni, samkvæmt öllum könnunum, en hann skal seldur samt. Innan fárra missera verður þessi þjóðareign komin í hendur fjársterkra „kjölfestufjárfesta” og eftir það verður engin leið að ákveða að bróðurpartur hagnaðarins renni til samfélagsþarfa.

Þannig mætti auðvitað lengi halda áfram að sýna fram á að kapítalisminn (sem karlarnir ráða að sönnu) hefur orðið enn öflugri og misskipting milli stétta vaxið, þótt staða kvenna hafi vissulega batnað. Stéttaskiptingin leiðir af misskiptingu auðsins og síðast en ekki síst: hægri menn hafa farið með pólitísku völdin um árabil og styrkt kapítalismann með ráðum og dáð. Verkefni þeirra sem vilja telja sig sósíalista og jafnaðarmenn er því ekki síst að ráða bót á þessu. Við það verk geta margir hópar jafnréttissinna/femínista að sjálfsögðu verið samherjar, en langt frá því allir.

hágé.