Fara í efni

LÆKKA HÁIR STÝRIVEXTIR BENSÍNVERÐ?

Umræður um „kreppuna" sem er skollin á, eða er að minnsta kosti sögð í dyrunum, hafa verið næsta undarlegar. Í fyrsta lagi tala álitsgjafar í austur og vestur og verður ekki betur séð en einu gildi hvað gert verður í efnahagsmálum. Engin leið er að taka hagfræðinga alvarlega, sama hvort þeir starfa í Seðlabankanum eða annarsstaðar, hver boðar sinn einka stóra sannleik. Í öðru lagi tala bæði seðlabankastjóri og forsætisráðherra þannig að réttast sé að draga saman seglin svo rækilega að stappar nærri stoppi. Ekki kaupa, ekki selja hvort heldur er íbúðir eða annað og Davíð Oddson gengur svo langt að segja: Íbúðaverð fellur um 30% að raungildi.

Bláa höndin í bankanum veifar stöðugri stýrivaxtahækkun, að sögn í þeim tilgangi að draga úr eftirspurn og lækka verðbólgu. Eins og allir hafa fyrir augunum hefur þessi stefna engu skilað, enda er verðbólgan ekki nema að takmörkuðu leyti upprunin í landinu sjálfu.

Fyrir venjulegt fólk, sem hefur tilhneigingu til að beita almennri skynsemi í daglegu lífi, hvað svo sem Davíð Oddsson og hundlélegir valdhafar hafa fyrir satt, vekur söngurinn undrun, margir gerast svartsýnir.

Jóseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, skrifar grein í Fréttablaðið 10. maí og gefur þeirri stefnu að mæta verðbólgu með stöðugum stýrivaxtahækkunum ekki háa einkunn. Rök hans eru auðskilin fyrir hvern mann: Verð á eldsneyti og mat, sem hækkar á heimsmarkaði verður ekki lækkað með hækkun stýrivaxta. Ástæðurnar eru margar, meðal annars þær að öflug iðnríki taka nú feikileg landssvæði til að rækta jurtir sem vinna má eldsneyti úr í staðinn fyrir mat, auk þess má nefna óseðjandi eftirspurn frá Kína og Indlandi, fjölmennustu ríkjum heimsins.

Í einföldu máli sagt: Innfluttar vörur verða ekki lækkaðar með því að kaupandinn (ríkið sem flytur inn) hækki hjá sér vexti og auki þannig kostnað þeirra sem framleiða og kaupa nauðþurftir á heimamarkaði. Jóseph kallar þá hagfræði sem hefur verðbólgumarkmið að leiðarljósi „klossaða" illa grundaða og lítt rannsakaða. Enn verri einkunn fær frjálshyggja Miltons Friedmans. Hún hafi verið barnaleg, segir Joseph og dýrkeypt þeim ríkjunum sem henni ánetjuðust.

Hvað segir hinn daglegi veruleiki okkur? Jú, innfluttar vörur hækka af tveimur ástæðum. Annars vegar hækka vörur erlendis og hinsvegar lækkar gengi krónunar. Til að hamla gegn þessu hækkar Seðlabankin í sífellu stýrivexti með þeim afleiðingum að vextir sem fólk greiðir af stórum hluta lána sinna eru stjarnfræðilega háir og bætast þannig við verðhækkanir. Sama gildir um fyrirtæki sem framleiða fyrir innlendan markað eða veita þjónustu, eins og flutning á vörum - þau greiða líka himinháa vexti. Því er ástæða til að spyrja: Leiða háir stýrivextir á Íslandi til lækkandi bensínverðs á heimsmarkaði?

Hér er bensínverðið aðeins tekið sem dæmi um vöru sem tekur verðbreytingum gersamlega óháð þeim hagstjórnaraðferðum sem smáríki eins og Ísland tekur sér fyrir hendur. Svarið er augljóslega nei. Háir vextir geta vissulega dregið úr eftirspurn eftir vöru og þar með haft áhrif á viðskiptahalla. Sama „gagn" gerir innflutta verðbólgan og lækkað gengi krónunnar. Fólk kaupir sjálfkrafa minna þegar varan hækkar.

Reynslan hér á landi virðist því sýna að Jóseph Stiglitz hefur talsvert til síns máls, rétt eins og Ragnar Árnason prófessor sem nýlega lagði til að vaxtahækkunarfárinu yrði hætt. Yfirlýsingar seðlabankastjóra annars vegar og forsætisráðherra hins vegar virðast aftur á móti sýna staðfastan ásetning um að láta „lendinguna" verða harkalega. Annar segir: kaupið sem allra minnst en hinn talar íbúðaverð niður um 30%. Maður gæti haldið að mennirnir hugsuðu þjóðinni þegjandi þörfina.

Er þá ekkert hægt að gera? Hyggin og hagsýn húsmóðir myndi áreiðanlega álykta í þessa veru: Ef erlendar vörur hækka í verði gerum þá það sem hægt er til að hinar innlendu hækki minna eða jafnvel ekki. Byrjum á að lækka þá himinháu vexti sem fyrirtæki og almenningur þarf að greiða vegna hárra stýrivaxta. Lækkum þannig innlenda tilkostnaðinn. Við viljum ekki atvinnuleysi. Útflutningsatvinnuvegirnir eru í sæmilegum málum með hinu lága gengi. Veitum atvinnulífinu, ekki síst framkvæmdaiðnaðinum, hæfilega innspýtingu með því að stórefla Íbúðalánasjóð (bankarnir eru hvort eð er að éta það sem úti frýs), hægjum á en stoppum ekki. Um leið sýnum við umheiminum að við skiljum einföld lögmál hagfræðinnar: Bensínverð á Íslandi lækkar ekki þótt stýrivextir Seðlabankans hækki upp úr öllu valdi.

hágé.