Fara í efni

HEIMSFORYSTAN FEST Á FILMU

Íslenskir blaðalesendur hafa að undanförnu fengið að fylgjast með forsætisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni,  í máli og myndum. Nú síðast hlýtur það að teljast  mikill hvalreki fyrir íslenska fjölmiðla að fá fest á filmu er leiðtogar heimsins fengu áheyrn hjá Halldóri þegar hann brá sér til Moskvu um síðustu helgi. Tilefnið voru hátíðahöld vegna þess að 60 ár eru nú liðin frá lokum seinna stríðs. Forystumenn margra stærstu ríkja heimsins minntust þessa atburðar í Moskvu og var okkar maður að sjálfsögðu þar. Ekkert nema gott um það að segja og einnig hitt að í föruneyti forsætisráðherrans var Steingrímur Ólafsson, fyrrum fréttamaður sem gegnir nýrri stöðu í forsætisráðuneytinu. Hann hefur þann starfa með höndum að koma formanni Framsóknarflokksins á framfæri við þjóð sína. Flestir fjölmiðlarnir sem síðustu daga hafa birt myndir af Halldóri með Bush Bandaríkjaforseta , Halldóri með Pútín Rússlandsforseta, Halldóri með Junichiro Koizumi forsætisráðherra Japans, Halldóri með Jacques Chirac forseta Frakklands, og kanslarahjónum Þýskalands, þeim Gerhard Schröder og frú Doris Schröder-Köpf., hafa látið þess getið að hirðljósmyndari forsætisráðherra Framsóknarflokksins á Íslandi, Steingrímur Ólafsson, hafi tekið myndirnar, þó ekki sé það einhlítt.

Ég leyfi mér að birta fjórar myndir eftir Steingrím hér á síðunni og bíð þess að sjálfsögðu að verða rukkaður um höfundarlaun.