Fara í efni

Heimahjúkrun í höfn

Í dag náðust samningar í kjaradeilu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga, en deilan hafið staðið í viku. Deilt var um breytingar á fyrirkomulagi akstursgreiðslna, og þá hvernig staðið skyldi að breytingunni. BSRB kom að deilunni vegna samnings frá árinu 1990 sem bandalagið gerði þegar heimahjúkrun var færð frá sveitarfélögum til ríkis. Um þetta hefur verið fjallað hér á síðunni og á heimasíðu BSRB. Samningurinn sem undirritaður var í dag tryggir svokallað sólarlag fyrir núverandi kerfi og launahækkanir í nýju kerfi sem munu mæta kjaraskerðingu sem ella hefði orðið við kerfisbreytinguna. Deilan var viðkvæm fyrir þá sök að starfsfólk í heimahjúkrun sinnir fólki sem engan veginn má verða af reglubundinni aðhlynningu og er það mikið fagnaðarefni að deilan skuli hafa verið til lykta leidd. Farið var bil beggja við lausn deilunnar. Þessi deila sýndi mér hve samstæður og kröftugur hópur átti í hlut. Samfélaginu er það mikið hagsmunamál að missa ekki af þessu fólki til annarra starfa eins og leit út um skeið að gæti gerst. Ef ég ætti að nefna einhver störf sem verðskulduðu góð kjör þá eru það nákvæmlega þessi störf. Forsvarsmenn Heilsugæslunnar sýndu samningsvilja og ábyrgð á lokasprettinum við lausn deilunnar og er það þakkarvert.