Fara í efni

HEIÐUR AÐ HEIMSÓKN


Það yljar mér alltaf um hjartarætur að hlýða á Lúðrasveit Verkalýðsins - sjá hana og heyra. Og einstaklega vænt þótti mér um þegar sveitin tók Nallan af öllum lífs og sálarkröftum úti fyrir höfuðstöðvum BSRB á baráttudegi verkalýðsins - auk annarra vel valinna laga. Okkur var heiður að heimsókn Lúðrasveitar Verkalýðsins.
Mynd Skólavord
Dagurinn var litríkur og kröftugur. Þórveigu Þormóðsdóttur, formanni Félags starfsmanna Stjórnarráðsins mæltist
einstaklega vel, þegar hún varaði við niðurskurði í velferðarþjónustunni. Það ætti ekki að gera atlögu að störfum því slíkt myndi veikja innviði heilbrigðiskerfisins og bitna sérstaklega illa á kvennastéttum. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, minnti á áfangasigra verkalýðshreyfingarinnar í tímans rás. Vel mælt og orð í tíma töluð. Síðan hvatti hann til þess að Íslendingar gengju í Evrópusambandið. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, tók undir í kvöldfréttum og virtist hann hnugginn yfir því að koma ekki í snarhasti sínum sjónarmiðum að í Stjórnarráðinu - væntanlega einsog verið hefur allar götur síðan 1991 með afar umdeilanlegum árangri. Sagði Vilhjálmur að hver mínúta væri dýrmæt. Við hugsuðum okkar sem súpum seyðið af afleiðingum ráðgjafar Verslunarráðsins og SA undanfarna tæpa tvo áratugi, sem fyrst og fremst hefur gengið út á peningafrjálshyggju og einkavæðingu.
Mikilvægt er að atvinnurekendur og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar einnig,  átti sig á því hvenær og hvenær ekki - í hvaða málum og hvaða málum ekki - þeir hafa umboð til að tala í nafni þjóðarinnar.   

Fjölmenni mun alls staðar hafa verið í 1. maí kaffi verkalýðsfélaga og stjórnmálasamtaka í Reykjavík og eflaust víðar á landinu.  
Fullt var út úr dyrum hjá VG í Reykjavík en því miður missti ég af dagskránni því mér dvaldist á Grettisgötunni, í höfuðstöðvum BSRB. Þar var fullt hús og rúmlega það, kræsingar framreiddar af Kvennakórnum, sem tók líka nokkur lög. Frábærar veitingar, frábær stemning.
Ekki má gleyma að þakka Villa og naglbítunum og Lúðrsveit Verkalýðsins á Austurvelli, Sigtryggi Baldurssyni og slagverksmönnum í Parabólum, Súsönnu Svavarsdóttur, ágætum fundarstjóra og kröftugum talsmanni framhaldskólanema, Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni.
Takk fyrir daginn.

mynd 3
mynd 4







Frábærar veitingar í boði BSRB, framreiddar af Kvennakórnum.