Fara í efni

HEAVEN

Nei, ekki himnaríki heldur Heaven heitir bókin eftir Mieko Kawakami sem nýlega kom inn um bréfalúguna frá Angústúruútgáfunni.

Svo ágeng er hún að sá sem á annað borð byrjar að lesa leggur bókina ekki frá sér fyrr en hún hefur öll verið lesin.

Hvers vegna ekki himnaríki heldur heaven? Það verður hver og einn að finna út. Útskýringuna fær lesandinn vissulega en er engu að síður, eins og sjálf söguhetjan, látinn reiða sig á ímyndunaraflið við að sklija muninn á himnaríki og heaven.

Þetta er ekki það eina í þessari bók þar sem lesandinn er látinn fylla í eyðurnar. Þannig skilur mamma sögupersónunnar við mann sinn án þess að sú atburðarás hafi verið orðuð að fullu. Samt vitum við nákvæmlega hvað gerðist.

Heaven er full af hinu ósagða sem þó kemst merkilega vel til skila. Það er einmitt galdur þessarar bókar, að láta lesandann sjálfan um að hugsa og fyllla í eyður; hugsa um lífið og tilveruna, mannlífið, gott og illt, ást, grimmd, meðvirkni, sadisma, hjarðeðli mannskepnunnar.

Þetta er ekki þægileg afþreyingarbók. Hún tekur á mann, blanda af spennusögu, heimspekiriti og forvarnarbók.

Viðfangsefnið er einelti. Svo langt er gengið í eineltinu að lesturinn verður nánast óbærilegur. Margt er sagt sem á erindi við okkur öll. Við eru minnt á það að sá sem lætur ofbeldi óátalið gerist meðvirkur og þar með jafnframt gerandi. Innst inni kunna flestir menn að greina illar hvatir frá góðum og í vanmætti sinum óttast margir hið illa innra með sér: “þegar enginn er nærri til að verja mig fyrir sjálfum mér,” svo vitnað sé til orða eins úr hýenuhjörðinni í Heaven.

Þessi bók lætur engan í friði. Það á hún heldur ekki að gera. Sá hlýtur að standa nærri fullkominni örvæntingu sem hugsar á þennan veg: “Hvað er það annars að deyja? Ég leyfði þessari vonlausu spurningu að metta myrkrið í herberginu mínu. Mér varð hugsað til þess að á hverju andartaki væri einhver að deyja einhvers staðar. Það eru ekki ýkjur, grín eða abstrakt hugmynd. Fólk er alltaf að deyja. Það er staðreynd. Öll deyjum við á endanum, sama hvernig við högum lífi okkar. Og sé svo, þá er lífið bara bið eftir dauðanum. Og sé svo, af hverju þá að hafa fyrir því að lifa? Af hverju var ég yfirleitt að lifa?”

Svona má gamall heimspekiprófessor hugsa í leit að inntaki í lífinu. En varla lítið barn.

Þessi bók er ekkert minna en brilljnat frá hendi höfundar og þýðing Jóns St. Kristjánssonar er listilega vel gerð, leikandi létt, hugkvæm og slök. Eftirmáli Mariönnu Clöru Lúthersdóttur er kærkomið samtal við lesandann og dýpkar skilning hans.

Takk Angústúra eina ferðina enn.