Fara í efni

Harmafregn frá Verslunarráði Íslands

Þeim sem kynnt hafa sér frumvarp ríkisstjórnarinnar um vatnsveitur óar við þeirri opnun sem þar er að finna á einkavæðingu Gvendarbrunnanna og annarra vatnsveitna í landinu. Enda þótt vatnsveitur skuli vera að meirihluta til í eigu samfélagsins, ríkis eða sveitarfélaga, samkvæmt frumvarpinu, þá geta einkaaðilar engu að síður náð ráðandi hlut. Dæmi um þetta eru svokallaðir kjölfestufjárfestar í hlutafélögum. Þegar danski Landssíminn var seldur á sínum tíma þá fékk bandarískt fyrirtæki, Ameritec minnir mig að það hafi heitið, ráðandi hlut sem byggði þó aðeins á rúmlega 30% eignarhlut.

Tvær leiðir – sú síðri valin

Tvær leiðir eru hins vegar til að girða fyrir einkavæðingu á drykkjarvatninu, sem er einhver heimskulegasta ráðstöfun sem hugsast getur, ef marka má reynsluna erlendis frá af einkavæðingu vatnsveitna. Önnur er að tryggja með lögum eignarhald almennings, hin er að banna með lögum að mikill arður verði tekinn út úr starfseminni. Fyrri aðferðin hugnast mér betur enda í lagi frá mínum bæjardyrum séð, að arður sé tekinn út úr opinberri starfsemi ef hann er látinn gagnast samfélaginu.

Stjórnin bakkar

Ríkisstjórnin hefur nú að hluta til bakkað með einkavæðingaráform sín frá því í vor leið. Veldur þar án efa málafylgja Vinstrihreyfingarinnar græns frambðs á þingi, en þingflokknum tókst í mikilli óþökk annarra flokka á þingi að fá málinu frestað. Það varð hins vegar til þess að frumvarpið skánaði lítillega.

BSRB á heiður skilinn

Enda þótt VG næði málinu út úr þinginu var það BSRB sem vann alla þá rannsóknarvinnu sem þokað hefur stjórnarmeirihlutanum (og hluta stjórnarandstöðunnar) til aukins skilnings á málinu. Sjá vefslóð: http://www.bsrb.is//page.asp?id=688 

Verslunarráðið telur vikið af braut

Verslunarráð Íslands er hins vegar harmi slegið. Í frétt þaðan segir m.a. " Stjórnvöld hafa á undanförnum árum sýnt framsýni með einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Þetta frumvarp markar hins vegar afturhvarf til eldri viðhorfa um nauðsyn aðkomu hins opinbera að atvinnurekstri. Verði það að lögum er vikið af þeirri braut sem stjórnvöld hafa markað undanfarin ár."

Fyrirsögn fréttarinnar á vefsíðu Verslunarráðsins er:
Frumvarp um vatnsveitur sveitarfélaga útilokar einkarekstur
sjá vefslóð: http://www.verslunarrad.is/files/%7b0167156b-32c7-4fcb-85aa-8757e3e11bc5%7d_skoðun%202%20-04.doc