Fara í efni

HARÐSVÍRAÐ LIÐ Í STJÓRNAR-RÁÐINU

 Í heilt ár amk. hefur ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks verið fullkomlega ljóst hvert stefndi í málefnum bankanna. En í stað þess að grípa í taumana og gelda fjárglæframennina strax til að lágmarka skaða samfélagsins breiddu ráðherrar yfir ástandið og lugu upp í opið geðið á landsmönnum. Og þeir gerðu raunar miklu meira: Einstakir ráðherrar lögðust í skipulagða auglýsinga- og lygaherferð í útlöndum með útrásarliðinu og prófessorstitluðum leigupennum af hagfræðilegum toga þar sem markvisst var reynt að troða upp á fjölmiðla og ráðamenn í helstu viðskiptalöndum okkar ógeðfelldri glansmynd af íslensku efnahagslífi og gjaldþrota fjármálakerfi sem sagt var standa afar styrkum fótum. Og fram á elleftu stundu stóð forsætisráðherrann frammi fyrir útlendum fjölmiðlum og sagði ósatt um stöðu mála; á Íslandi var allt í lukkunnar velstandi að hans sögn.

Hvað er hægt að kalla svona framferði? Getur verið að það jaðri jafnvel við landráð? Ekki hef ég forsendur til að leggja dóm á það. En hitt er deginum ljósara að ráðherrarnir allir eiga að standa upp úr stólum sínum þegar í stað, segja af sér þingmennsku, og biðja þjóðina að minnsta kosti afsökunar á sínum óhæfuverkum.
Sigurborg