Fara í efni

HALLDÓR ÓVINSÆLLI EN BUSH !

Ég tók eftir því nú um daginn að nýjustu skoðanakannanir hér og í Bandaríkjunum um vinsældir forvígismanna, sýna að foringi íslensku ríkisstjórnarinnar Halldór Ásgrímsson hefur minna traust hjá sinni þjóð í skoðanakönnunum en Bush Bandaríkjaforseti nýtur í Ameríku og þykir það þó ekki mikið. Stríðsrekstur Bush, Rumsfeld og félaga í Írak og Afganistan er sem kunnugt er að kosta Bandaríkjamenn óhemju peníng og þúsundir ungra Bandaríkjamanna hafa látið lífið. Eitthvað af óvinsældum Halldórs kann að stafa af því að hann ásamt Davíð setti nafn Íslands á lista yfir lönd sem studdu þá Bush og Blair í því að ráðast inn í Írak sem allt reyndist byggt á lygi. Afgangurinn af óvinsældum formanns Framsóknarflokksins er heimatilbúinn. Óstjórn í efnahagsmálum og góðæri sem aðeins þeir ríku njóta. Einkavæðingar- og stóriðjuæði sem komið er algerlega úr böndunum og nú fær almenningur reikninginn.  Það er gott ef þjóðin er með á nótunum og veit hverjum er um að kenna. Helst að maður hafi áhyggjur af því að Framsókn takist að fela sig á bak við x-b og Sjálfstæðisflokkurinn komist upp með að þykjast nú mikill vinur gamla fólksins. Hvað er hægt að gera Ögmundur til að koma í veg fyrir að Framsókn og stjórnarflokkunum takist að ljúga sig einu sinni enn í gegn um kosningabaráttu og kaupa sér vinsældir með peningum frá liðinu sem þeir hafa verið að hygla? Er ekki hægt að banna lygaauglýsingar og skylda flokka til að upplýsa hver borgar fyrir þá auglýsingar? Ég hef heyrt að þannig reglur séu til í mörgum löndum.
Gaui

Þakka þér bréfið Gaui. Sjálfum líst mér vel á hugmyndir Þjóðarhreyfingarinnar að flokkarnir sammælist um að hafa ekki sjónvarpsauglýsingar fyrir kosningar. Sjónvarpsauglýsingar eru, öðrum auglýsingum fremur, lítið upplýsandi og áróðurskenndar. Hvað er hægt að gera, spyrð þú, til að koma í veg fyrir að stjórnarflokkarnir kaupi sér sigur á fölskum forsendum. Svar mitt er að allir leggist á eitt í kosningabaráttu með þeim flokki sem býður upp á skýrastan valkost við núverandi valdhafa: VG.
Með kveðju,
Ögmundur