Fara í efni

Halldór Ásgrímsson neitar að axla ábyrgð!

Í Kastljósþætti Sjónvarpsins í fyrradag hélt Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra því fram að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hefði fengið mikla umræðu á Alþingi auk þess sem hann fór með staðlausa stafi um ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þetta varð tilefni umræðu á þingi í gær þar sem ráðherrann var sakaður um að hafa brotið þingskapalög þegar hann upplýsti ekki utanríkismálanefnd Alþingis um stuðning Íslands við innrásina í Írak og fyrirheit um þátttöku í uppbyggingu að innrásinni lokinni. Leiddi þetta til mjög snarpra orðaskipta í þinginu.

Í teboði hjá Óðni

Ekki verður hið sama sagt um spjall þeirra Halldórs og Óðins Jónssonar fréttamanns á morgunvakt RÚV í morgun. Þar var heldur meira logn. Í rabbi þeirra var vikið að þessum málum og enn eina ferðina "fræddi" Halldór Ásgrímsson þjóðina um stöðuna í alþjóðamálum. Í Afganistan hafi tekist að brjóta hryðjuverkamenn á bak aftur, þar sé nú lýðræði í hávegum haft; í Úkraínu hins vegar væri annað uppi á teningnum, það þekkti Halldór eftir dvöl sína þar. Allt minnti þetta nokkuð á það þegar sami maður kom á sínum tíma af fundi með bandarískum ráðamönnum og sagðist hafa óyggjandi sannanir fyrir gereyðingarvopnum í Írak! Aldrei hefur hann þurft að standa skil á því hverjar þessar sannanir hafi verið.
Á Alþingi hafa bæði Halldór Ásgrímsson og núverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, farið undan í flæmingi, svarað út og suður eða með skætingi þegar upplýsinga hefur verið óskað og sem kunnugt er mæta þessir forsvarsmenn þjóðarinnar núorðið aðeins í fjölmiðla með því skilyrði að þeir séu þar einir gagnvart spyrjendum. Reynir þá mjög á fréttamenn að fylgja málum eftir. Niðurstaðan úr spjalli forsætisráðherrans yfir tebolla í morgunsárið var í rauninni engin önnur en sú, að Halldór Ásgrímsson vill sem minnst ræða liðna atburði. Kvaðst hann vilja horfa fram á við.

"...hafa mikla þörf fyrir það að leggja þetta til hliðar"

Í öðrum hlutaðeigandi ríkjum hafa ráðamenn einnig forðast að horfast í augu við þær lygar sem innrásin í Írak var réttlætt með og var sú lýsing sem Halldór Ásgrímsson gaf í viðtali við RÚV í júní 2003, þegar blekkingarvefurinn hafði verið afhjúpaður, nánast brjóstumkennanleg. Halldór var þá staddur á NATÓ-fundi í Madrid. Í útvarpsviðtalinu sagði hann að á NATÓ-fundinum hefði lítið verið rætt um Íraksmálið, "Það hefur komið upp gagnrýni, þeirri gagnrýni hefur lítið verið svarað og þeir aðilar sem hafa mest verið gagnrýndir þeir svona hafa mikla þörf fyrir það að leggja þetta til hliðar og menn horfi sameiginlega fram á veginn og þar af leiðandi finnst mér að menn séu að líta til framtíðar hér en líti nánast lítið sem ekkert til baka."
Erlendis hafa ráðamenn sem betur fer ekki komist upp með að þegja þetta mál í hel og ber að þakka það stjórnarandstöðu og gagnrýnum fjölmiðlum. Hér á landi reynir stjórnarandstaðan að fá því framgengt að rannsóknarnefnd verði skipuð til að fara yfir gögn í málinu og ganga úr skugga um hvað er satt og hvað er logið. ( sjá hér) Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn neita að verða við þessari sjálfsögðu kröfu en forsvarsmennirnir halda áfram að slá úr og í og eru mótsagnirnar í málflutningnum nánast óendanlegar. Um þetta er hægt að taka fjölmörg dæmi.

Ýmist gereyðingarvopn eða Saddam

Í fyrrnefndum Kastljósþætti var Halldór Ásgrímsson spurður út í Íraksinnrásina: "Það liggur náttúrulega alveg ljóst fyrir að þetta mál var margrætt á Alþingi. Það var rætt í utanríkismálanefnd, það var rætt í þinginu en að lokum var það að sjálfsögðu utanríkisráðherra og forsætisráðherra sem gerðu tillögu í þessum efnum. Við vorum beðnir um þrjá hluti. Við vorum beðnir um það að styðja það ásamt okkar bandamönnum.
Kristján: Beðnir af hálfu?
Halldór Ásgrímsson: Að, þeirra þjóða sem ætluðu að fara þarna inn, það er að segja Breta og Bandaríkjanna, að styðja það að Saddam Hussein væri komið frá á grundvelli ályktunar Sameinuðu þjóðanna held ég númer 1.411, að þeir fengju afnot af Keflavíkurflugvelli í þessu samhengi og við værum reiðubúnir til þess að lýsa yfir stuðningi við uppbyggingu í Írak ef að til þessarar innrásar kæmi." 
 

Í fyrsta lagi er ályktun Öryggisráðsins sem vísað er til nr. 1441 en ekki 1411 en það flokkast væntanlega undir mismæli. Hvað varðar innihald ályktunarinnar fer forsætisráðherra hins vegar með rangt mál. Hún vísar til gereyðingarvopna en ekki ógnarstjórnar Saddams Husseins. Varðandi þá staðhæfingu að málið hafi verið margrætt á þingi er það að segja að Íraksmálið kom þar vissulega oft til umræðu. En málin voru aldrei til lykta leidd. Þannig bar þingflokkur VG fram formlega tillögu sem aldrei fékkst borin undir atkvæði (sjá hér) og í utanríkismálanefnd fór ekki fram umræða áður en ákvörðun var tekin í ríkisstjórn um stuðning við Íraksinnrásina og fyrirheit íslenskra stjórnvalda um aðstoð við uppbyggingu að árás lokinni.

Lesendur Morgunblaðsins upplýstir, ekki Alþingi

Í Morgunblaðinu 19. mars 2003 skýrði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hvað fælist í því að Ísland hefði verið sett á lista hinna 30 vígfúsu ríkja. Hann sagði m.a.: "Í þessu felst í fyrsta lagi heimild til yfirflugs yfir íslenzka flugumsjónarsvæðið. Í öðru lagi heimilum við afnot af Keflavíkurflugvelli ef þurfa þykir. Í þriðja lagi tökum við þátt í uppbyggingu í Írak eftir að ófriði lýkur. Í fjórða lagi tökum við pólitíska afstöðu með því, að ályktun 1441 verði fylgt eftir að loknu fjögurra mánaða þófi."

Forsætisráðherra í hróplegri mótsögn við sjálfan sig

Um þetta er hægt að skrifa langt mál. En klykkjum út með orðaskiptum sem ég átti við Halldór Ásgrímsson, núverandi forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra, á Alþingi 27. janúar 2003. Ástæðan fyrir því að ég vel þessi orðaskipti er sú að forsætisráðherra segir nú að ástæðan fyrir innrásinni í Írak hafi fyrst og fremst verið sú að losa þyrfti Íraka við harðstjórann Saddam Hussein en ekki yfirráð Íraka yfir gereyðingarvopnum.

Ögmundur Jónasson: Herra forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum hafa að undanförnu staðið yfir stórfelldir herflutningar til svæða aðliggjandi Írak og augljóst að Bandaríkjastjórn er staðráðin í því að skipta um stjórn í Bagdad með vopnavaldi. Mannréttinda- og friðarsamtök víðs vegar um heim hafa varað við stríðsáformum Bandaríkjastjórnar og geigvænlegum afleiðingum innrásar fyrir alþýðu manna í Írak. Hér á landi hefur einnig verið efnt til mótmæla af þessu tilefni.
Í ljósi yfirvofandi stríðshættu og hótana Bandaríkjastjórnar um að ráðast á Írak vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort samband hafi verið haft við ríkisstjórn Íslands af hálfu Bandaríkjastjórnar eða annarra ríkisstjórna, eða hvort ríkisstjórn Íslands hafi að eigin frumkvæði haft samband við Bandaríkjastjórn til að koma
sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda á framfæri. Og ef svo er, hvað hefur aðilum farið í milli?

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson): Herra forseti. Bandarísk yfirvöld hafa ekki haft samband við íslensk stjórnvöld og við höfum heldur ekki sett okkur í samband við bandarísk stjórnvöld út af þessu máli. Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld telja nauðsynlegt að betra ráðrúm gefist fyrir vopnaeftirlitsmenn til að athafna sig í Írak og það liggur líka fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda að við teljum nauðsynlegt að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taki þetta mál til frekari umfjöllunar.
Auðvitað vonast allir til þess, og ekki síst Íslendingar, að hægt verði að komast hjá átökum á þessu svæði. Það eru einkum þrír kostir í stöðunni: Að það breytist ekki neitt, sem er mjög vond niðurstaða, í öðru lagi að ríkisstjórnin í Írak undir forustu Saddams Husseins fari frá völdum með einhverjum hætti, sem hlýtur að vera besta niðurstaðan, og í þriðja lagi að til átaka komi á svæðinu. Ég held að allir séu sammála um að það væri mjög vont ef til þess þyrfti að koma. En það liggur líka ljóst fyrir að án utanaðkomandi þrýstings er ekki líklegt að skipti verði um ríkisstjórn í Írak og þar verði breyting á. Við verðum að hafa það í huga að núverandi staða er mjög slæm því að það eru miklar hörmungar í landinu og það er kominn tími til að þeim hörmungum linni.
Að mínu mati er óbreytt ástand ekki góð niðurstaða heldur.

Ögmundur Jónasson: Herra forseti. Ég vil beina þeirri ósk til hæstv. utanrrh. að hann skýri á mjög afdráttarlausan hátt hver stefna íslenskra stjórnvalda er í þessu máli.
Nú er það svo að deilur standa um hvernig túlka beri ályktun öryggisráðsins nr. 1441. Annars vegar eru Bandaríkjamenn og Bretar sem segja að ályktunin veiti þeim heimild til innrásar í Írak ef á daginn kemur að Írakar búa yfir gjöreyðingarvopnum. Aðrir telja hins vegar að öryggisráðið þurfi að koma saman að nýju og álykta á nýjan leik.
Í viðtali við hæstv. utanrrh. á Stöð 2 þann 22. þessa mánaðar talar hann að því er virðist á nótum Bandaríkjastjórnar. Hann segir á þá leið að komi í ljós að Saddam Hussein hafi brotið gegn samþykktum öryggisráðsins og nýju samþykktinni, ef fram koma sannanir fyrir þessu --- og hér vitna ég, með leyfi forseta, í hæstv. utanrrh.:
,,Þá liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að Sameinuðu þjóðirnar hafa þá veitt heimild til þess að grípa til aðgerða.``
Þetta er lína Bandaríkjastjórnar, haukanna í Washington.

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson): Herra forseti. Ég tel að það sé alveg ljóst að ef í ljós kemur að Saddam Hussein býr yfir gjöreyðingarvopnum og vill ekki afvopnast, þá stendur alþjóðasamfélagið frammi fyrir því að grípa til sinna ráða.
Það er alveg ljóst af okkar hálfu að við teljum algjörlega nauðsynlegt að þetta mál komi til umfjöllunar öryggisráðsins á nýjan leik, það höfum við margsagt. En ég held að allir geti verið sammála um það að ef þessi maður býr yfir gjöreyðingarvopnum með þeim afleiðingum sem það gæti haft í för með sér, þá stendur alþjóðasamfélagið frammi fyrir mjög erfiðri stöðu. Það hlýtur að vera krafa okkar Íslendinga eins og annarra að þeir afvopnist. Það er krafa Sameinuðu þjóðanna.
Hins vegar ef í ljós kemur að hann býr ekki yfir gjöreyðingarvopnum, þá er málið væntanlega leyst.

Ögmundur Jónasson: Herra forseti. Ég tek undir að það er krafa okkar að þær þjóðir sem búa yfir gjöreyðingarvopnum afvopnist og hlíti þeim reglum sem alþjóðasamfélagið setur.
En ég vek athygli á því að hæstv. utanrrh. hefur hér breytt afstöðu sem kom fram í viðtali við Stöð 2 22. janúar sl. en þar sagði hæstv. utanrrh. að hann liti svo á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu veitt heimild til innrásar í Írak ef á daginn kæmi að gjöreyðingarvopn væru fyrir hendi í Írak.
Nú hefur hæstv. ráðherra breytt þeirri afstöðu og ég fagna því. Hann segir að hann líti svo á að öryggisráðið þurfi að koma saman að nýju og undir þetta tek ég. En ég tel að ekki sé nóg að gert. Íslensk stjórnvöld eiga að hafa frumkvæði að því að hafa samband við Bandaríkjastjórn og koma þeirri afstöðu Íslendinga á framfæri að allra leiða skuli leitað til að afstýra innrás í Írak, og í öðru lagi að komi til h
ernaðaraðgerða gegn Írak á næstu mánuðum skuli Ísland tilkynna að ekki verði heimiluð afnot af aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði.

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson): Herra forseti. Ég tel að það sem kom fram í því viðtali sem hv. þm. vitnar til á Stöð 2 sé alveg í samræmi við þann málflutning sem ég hef haft hér. Ég býst við því að ef hann les viðtalið í heild sinni þá skilji hann það. En svo virðist sem hann hafi tekið ákveðið atriði út úr en auðvitað verður að fara yfir viðtalið í heild í þessu flókna máli til að túlka það. En ég tel að með þeim orðum mínum hafi ekki orðið nein stefnubreyting og það sem ég hef sagt hér er í samræmi við það sem sagt var í þessu viðtali.

Er vanþörf á að rannsaka þetta mál? Er kannski skiljanlegt hvers vegna Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson streitast á móti því að svo verði gert?