Fara í efni

HÁLFSANNLEIKUR FORSTJÓRA

Sæll Ögmundur.
Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins skýrir í Morgunblaðinu af hverju bótaþegar þurfa nú að greiða stofnuninni þrjú þúsund milljónir króna. Að mestu skerðast menn vegna fjármagnstekna. "Skýringin er sú að það eru mjög margir sem hafa ekki veitt okkur neinar upplýsingar, eða ekki réttar upplýsingar, um sínar fjármagnstekjur." Þetta segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins.
Hér er bara hálf sagan sögð, og tæplega það. Forstjórinn lætur þess ekki getið að Jóhanna Sigurðardóttir, þá félagsmálaráðherra, ákvað að breyta skerðingarreglum lífeyrisbóta Tryggingastofnunar ríkisins í desember 2008. Þetta er veigamikil skýring að auknum skerðingum nú. Breyttar skerðingarreglur voru liður í efnahagsaðgerðum þáverandi ríkisstjórnar og það var þáverandi forsætisráðherra sem mælti fyrir frumvarpi um efnahagsaðgerðirnar rétt fyrir þinglok í desember. Embættismaðurinn hefði mátt segja alla söguna eins og hún er. Áður skertu 50% fjármagnstekna bætur, eftir breytingu Jóhönnu Sigurðardóttur skerðast bætur miðað við 100%, að teknu tilliti til skiterís afsláttar. Það alvarlega við hálfsannleikann er að almenningur gæti haldið að lífeyrisþegar væru að svindla á kerfinu með því að gefa ekki upp fjármagnstekjur sínar og væru þar með svindlarar. Það er ljótt að gera heiðarlegt fólk að svindlurum. Það er svo annað mál sem sómakærir lögfræðingar, eða lögmaðurinn í félagsmálaráðuneytinu, ættu kannske að íhuga en það er þetta: Er þessi skerðing ígildi skattlagningar aftur í tímann? Lögin runnu hljóðlaust í gegn á Alþingi í desember 2008. Ekki er ólíklegt að einhverjir bótaþega hefðu ráðstafað sparifé sínu á síðasta ári með öðrum hætti ef fyrr hefðu legið fyrir skerðingaráform Jóhönnu Sigurðardóttur. Desemberskerðingu ráðherrans myndu einhverjir kalla lífkjaraskerðingu eftir á. Einhvern veginn eru þessar aðferðir af sama meiði og svindl og prettir bankastrákanna. Það er skömm að hálfsannleika.
Ólína