Fara í efni

Hagstofan og vísitalan

Birtist í Mbl
Um miðjan ágúst var lánskjaravísitalan hækkuð. Að hluta til var þetta gert vegna hækkunar á lottómiðum. Hækkun á lánskjaravísitölunni af þessum sökum nam 0,17%. Fram hefur komið að afleiðingin hefur orðið sú að höfuðstóll lánsfjárskuldbindinga hefur hækkað um 900 milljónir króna. Það munar um minna. Lán fjölskyldu sem er að koma sér þaki yfir höfuðið hækkuðu að sjálfsögðu í takt við aðrar vísitölubundnar skuldbindingar. Fólk skuldar mismkið en höfuðstóll fjölskyldu sem skuldar 10 milljónir í vísitölubundnum lánum hækkaði um tæpar 20 þúsund krónur. Fólk sem er á lágum launum finnur fyrir slíkri hækkun. Og síðan koma vextirnir ofan á þessa hækkun.

Menn greinir á um hvort lán eigi að vera vísitölubundin eða ekki. Um hitt ætti enginn að þurfa að deila hvaða þýðingu það hefur að vísitalan sé rétt reiknuð. Það verkefni hefur Hagstofa Íslands með höndum. Að sjálfsögðu eigum við að geta treyst því að þar á bæ sé rétt reiknað.

BSRB stendur vaktina.

Fyrir fáeinum dögum sýndi Gunnar Gunnarsson, hagfræðingur BSRB, fram á það, bæði í greinaskrifum og viðtölum, að við síðustu útreikninga hefði ekki verið rétt reiknuð hækkun á vísitölunni, réttar forsendur hefðu ekki verið lagðar til grundvallar. Hagfræðingurinn benti á að ef lánskjaravísitölu væri ætlað að verðtryggja fjármagn væri það algert grundvallaratriði að kaupmáttur krónunnar væri lagður til grundvallar vísitöluútreikningum. Sýndi hann fram á að þetta hefði ekki verið gert við umrædda vísitöluhækkun og færði sannfærandi rök fyrir máli sínu. Þetta þýðir að Hagstofan hefur oftryggt fjármagnseigendur á kostnað skuldarans.

Auðvitað getur Hagstofunni eins og öðrum orðið á mistök. En mistök á að leiðrétta, ekki síst þegar slíkir hagsmunir eru í húfi eins og í þessu dæmi.

Það er gott til þess að vita að BSRB standi vaktina í þessum efnum. Ég bíð hins vegar eftir því að Hagstofan geri hreint fyrir sínum dyrum. Nokkur umfjöllun hefur orðið um þetta í fjölmiðlum en ekki nándar nærri nóg. Það er ekkert smámál ef það reynist rétt að höfuðstóll vísitölubundinna lána hafi verið hækkaður um tæpan milljarð án þess að til þess lægju nokkur rök. Ég hefði haldið að slíkt kallaði á mikla umræðu, leiðréttingu og breyttar verklagsreglur.