Fara í efni

HAFA MENN NOKKUÐ GLEYMT?

Hafa kjósendur nokkuð gleymt Kárahnjúkadeilunni, svikunum við aldraða og öryrkja, einkavinavæðingunni, S-hópnum, Íraks-innrásinni, biðlistunum á hjúkrunarstofnanir og skattamismununinni?
Hafa menn nokkuð gleymt því að á undanförnum 12 árum hafa komið brestir í velferðarkerfið vegna stjórnvaldsaðgerða?
Hafa menn nokkuð gleymt því að eftir að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þurrkaði út félagslega þætti húsnæðislöggjafarinnar er útilokað fyrir efnalítið fólk að eignast húsnæði – slíkir eru okurvextirnir - eða leigja á rándýrum markaði því húsaleigubæturnar hafa verið frystar?
Hafa menn nokkuð gleymt því að gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu hefur aukist jafnt ogt þétt með þeim afleiðingum að efnalítið fólk veigrar sér við því  að leita lækninga?

Hafa menn nokkuð gleymt því að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa skert barnabætur um milljarða króna á stjórnartíma sínum?

Hafa menn nokkuð gleymt því að þúsundum einstaklinga hefur verið útskúfað úr samfélaginu vegna fátæktar? Það á ekki aðeins við um öryrkja og aldraða. Það á við um tekjulitlar einstæðar mæður og einnig um tekjulitla einstæða feður.

Á þessum félagslegu brotalömum vill Vinstrihreyfingin grænt framboð ráða bót. Við eru velferðarflokkur sem mun gera allt sem í okkar valdi stendur til að jafna kjörin og efla velferðina fyrir samfélagið allt.