Fara í efni

Hæstiréttur, áfrýjunarheimildir og mannréttindi

Birtist í Morgunblaðinu.
Venjulega eru tvö dómstig í dómsmálum hér á landi, héraðsdómur og Hæstiréttur. Frá þessu eru þó undantekningar. Er þar um að ræða einkamál þar sem fjárhagslegir hagsmunir eru ekki miklir og opinber mál þar sem refsingar eru ekki þungar. Í slíkum málum þarf leyfi frá Hæstarétti til þess að unnt sé að áfrýja niðurstöðum héraðsdóms.

 

 

En þótt refsingar séu ekki þungar borið saman við ýmis önnur mál er ekki þar með sagt að þær geti ekki verið þungbærar. Mér er kunnugt um mál þar sem dómur hefur fallið í héraðsdómi en hinum dæmda meinað að sækja rétt sinn í Hæstarétti. Viðkomandi hafði verið dæmdur til þess að greiða sekt sem hljóp á tugum þúsunda ella sæta fangelsisvist. Hann segir sig vera saklausan og að í sínum huga vegi þyngra æran en samanlögð sektin og hugsanleg fangavist.

 

 

Í þessu umrædda máli réðst niðurstaðan af framburði vitna og var að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir héraðsdóm að vega og meta ýmis álitaefni. Í héraðsdómi að þessu sinni sat þó aðeins einn dómari og ef að líkum lætur er hans dómsorð endanlegur úrskurður nema Hæstiréttur breyti fyrri ákvörðun sinni og heimili einstaklingnum að áfrýja máli sínu. Þetta hlýtur að orka tvímælis. Að mínu mati er fráleitt annað en að unnt sé að vísa slíkum úrskurði til Hæstaréttar.

 

 

Í frumvarpi sem undirritaður hefur flutt á Alþingi er lagt til að þegar um er að ræða mál sem ráðast af sönnunargildi framburðar vitna verði lögbundið að dómurinn sé fjölskipaður. Það gefur augaleið að með þeim hætti yrði stuðlað að traustara réttaröryggi. En þar með er réttaröryggið þó ekki nægilega tryggt. Áfrýjunarrétturinn þarf að vera mun rýmri en hann nú er.

 

 

Hér er rétt að staldra við og spyrja á hvern hátt löggjafinn réttlæti þá heimild sem Hæstarétti er veitt til þess að ákvarða hver megi áfrýja og hver ekki. Röksemdir fyrir takmörkun á rétti til áfrýjunar eru fyrst og fremst þær að takmarka þurfi málafjölda á áfrýjunarstigi. Sagt er að miklir hagsmunir séu bundnir við að álag á áfrýjunarstigi verði ekki of mikið þannig að málsmeðferð dragist á langinn. Og í framhaldinu er bent á að undanfarin ár hafi náðst mikill árangur hvað varðar málshraða fyrir Hæstarétti. Þetta kann allt að vera satt og rétt en ekki má gleyma því að þetta er á kostnað þeirra mála sem er vísað frá. Hér að framan nefndi ég slíkt dæmi. Viðkomandi einstaklingi þykja brotin á sér mannréttindi. Undir það sjónarmið skal tekið.

 

 

Í fyrrnefndu frumvarpi er lagt til að felldar verði niður takamarkanir við því að maður sem hefur verið sakfelldur í opinberu máli geti áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar. Ákvörðun handhafa ríkisvaldsins um að ákæra einstakling fyrir refsiverðan verknað er að sjálfsögðu stór ákvörðun. Leiði ákæran til sakfellingar getur slíkt verið mikið áfall fyrir þann sem fyrir verður. Þau rök eru ekki til og þeir þjóðfélagslegu hagsmunir ekki heldur sem réttlæta lagareglu sem takmarkar rétt sakfellds manns til þess að bera sakfellinguna undir dómara á æðra dómstigi. Að mínu mati eru rökin fyrir óheftum áfrýjunarrétti sakfelldra manna í opinberum málum svo sterk að önnur rök verða að víkja. Sparnaðarrökum má ekki tefla fram á kostnað réttlætis og mannréttinda.

 

 

Þegar allt kemur til alls er það viðkomandi einstaklingur sem tekur fjárhagslega áhættu af því að áfrýja máli. Tapi hann málinu mun hann að jafnaði þurfa að bera allan sakarkostnað. Þetta mál snýst þó ekki um þá peninga sem dæmdur maður er reiðubúinn að tefla fram í von og óvon frammi fyrir Hæstarétti. Þetta mál snýst um mannréttindi og væri fróðlegt að heyra álit lögmanna og annarra um þá hlið málsins.