Fara í efni

GUÐLAUGUR ÞÓR OG MILLILIÐIRNIR

Framkvæmdastjóri nýs fyrirtækis, GBU (Geðvernd barna og unglinga), segir í viðtali við 24 Stundir í dag að það sé verulega til bóta að sérfræðingar sem sinna þessum málaflokki komist undir eitt þak. Í fréttinni kemur fram að þetta sameiginlega þak fyrirtækisins er gamla Heilsuverndarstöðin í Reykjavík, sem nú á að heita Heilsuverndarstöðin ehf.! Framkvæmdastjóri GBU segir í þessu viðtali: „Það er nú þegar heilmikil samvinna milli fagfólks en með því að vera undir einu þaki verður hún markvissari heldur en þegar hver og einn vinnur á stofu úti í bæ. Þetta verður vísir að klíník." Einsog ég skil það er þetta meira en vísir að klíník heldur er að verða til nýr einkarekinn spítali í gömlu Heilsuverndarstöðinni. Þetta gerist svona: Ríkisstjórnin sveltir opinbera heilbrigðisþjóunstu til að skera niður. Þörfinni er síðan svarað á einkamarkaði. Ein ástæðan fyrir gagnrýni á einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar hefur verið sú að með því sé þjónustunni sundrað. Fyrir bragðið verði erfiðara um vik að hafa yfirsýn og tryggja samfellda þjónustu. Þetta sér einkapraxísinn að sjálfsögðu og finnst gott að vera saman - undir einu þaki. Skiljanlega. En ég spyr hvers vegna að leyfa Guðlaugi Þór að setja inn milliliði í heilbrigðiskerfið? Hvers vegna ehf-in? Hvort þjónar Guðlaugur Þór fjárfestum eða almenningi? Í mínum huga leikur enginn vafi á því að hann dregur fyrst og fremst taum fjárfestanna. Hvenær losnum við við þessa ríkisstjórn Ögmundur?
Sunna Sara

Þakka þér fyrir bréfið Sunna Sara. Því miður er fátt sem bendir til að við losnum við ríkisstjórnina í bráð. Þau elska öll stólana sína. Ekki gleyma því.
Kv.
Ögmundur