Fara í efni

GRÆNN FLOKKUR OG RAUÐUR


Laugardagsleiðari Morgunblaðsins er sérstakur fyrir ýmissa hluta sakir. Fyrir það fyrsta er þar agnúast út í Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og honum fundið flest til foráttu. Honum eiga að hafa verið mislagðar hendur umfram alla aðra formenn pólitískra flokka á síðustu vikum og beinlínis sagt að hann ætti að fara að hugsa sér til hreyfings úr formannssætinu.

Nú vill svo til að Vinstrihreyfingin grænt framboð vann meira á í nýafstöðnum kosningum en nokkur annar stjórnmálaflokkur og er í þeim skilningi sigurvegari kosninganna. Ef meta ætti formenn stjórnmálaflokka á mælikvarða árangurs þeirra í kosningunum ætti að óska Steingrími J. Sigfússyni sérstaklega til hamingju en ekki hnjóða í hann eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerir.

En það er annað sem leiðarahöfundurinn mælist til við okkur í VG. Hann vill að við hættum að leggja upp úr vinstri pólitík en gerumst þess í stað einvörðungu grænn flokkur. Það var jú heiti téðs leiðara: Grænn flokkur.

Vinstrihreyfingin grænt framboð er vissulega grænn umhverfisverndarflokkur sem samþættir sjálfbæra þróun allri sinni pólitík og stefnumótun. Hann er eini slíki flokkurinn á Alþingi og hefur svo verið allar götur frá 1999 þegar flokkurin var stofnaður. En VG er líka vinstrisinnaður velferðarflokkur sem leggur áherslu á jöfnuð og félagslegt réttlæti. Hann er því grænn flokkur og rauður.
Nú þegar  Sjálfstæðisflokkur og Samfylking eru í þann mund að læsa sig saman – tveir markaðssinnaðir stjórnmálaflokkar – hefur þörfin á aðhaldi frá vinstri ekki verið meiri í langan tíma. Það er mín skoðun. Það er hins vegar ekki skoðun Morgunblaðsins. Morgunblaðið vill þvert á móti úthýsa vinstriáherslum úr íslenskri pólitík. Skyldi fólki almennt þykja það heppilegt í þjóðfélagi sem stefnir í misréttisátt að þagga niður alla gagnrýni á markaðshyggjuþjóðfélagið, að vísa út af pólitískum umræðuvettvangi lausnum sem byggja á samvinnu og samhjálp? Er þetta heppilegt í þjóðfélagi þar sem markaðshyggjuöfl eru að treysta völd sín og áhrif sem aldrei fyrr? Er það að mati Morgunblaðsins virkilega best fyrir íslenska þjóð að troða upp á hana markaðslausnum, jafnvel á þeim sviðum þar sem þær hafa gefið slæma raun? Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa hugmyndir í þessa veru, t.d. hvað varðar heilbrigðiskerfið.Væri það gott fyrir lýðræðið að vinstri sinnað félagshyggjufólk ætti sér engan pólitískan farveg inn í Alþingi Íslendinga? Er þetta mjög lýðræðisleg hugsun hjá Morgunblaðinu? Sjálfum finnst mér hún hvorki vera vitræn né lýðræðisleg. Í reynd er hún nánast einfeldningsleg. Eða halda menn að vinstrisinnað fólk á Íslandi sé dautt úr öllum æðum? Það get ég fullvissað leiðarahöfund Morgunblaðsins og alla hans skoðanabræður um að ekkert er fjær sannleikanum.