Fara í efni

Góðærið til launafólks

Birtist í Mbl
Boðskapur leiðara Morgunblaðsins til opinberra starfsmanna, miðvikudaginn 22. janúar, er skýr. Nú skulu þeir sitja eftir þegar skipta á upp góðærinu. Þeir hafa þegar fengið það sem þeim ber. „Sú leiðrétting sem opinberir starfsmenn og bankamenn hafa fengið á síðustu tveimur árum verður að duga,“ segir orðrétt í leiðaranum.

Tilefni þessa leiðara eru útreikningar Hagstofu Íslands á launavísitölunni sem sýnir að launavísitala opinberra starfsmanna og bankamanna á 1. ársfjórðungi 1996 hækkaði meira en á almenna markaðinum.

Í sama tbl. Morgunblaðsins er viðtal við þá Gylfa Arnbjörnsson, hagfræðing ASÍ, og Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra VSÍ. Gylfi rifjar þar upp að við endurskoðun kjarasamninga í nóvember 1995 hafi launafólk á almenna markaðinum fengið hækkun desemberuppbótar en opinberir starfsmenn hins vegar ekki fengið neitt. Launafólk á almenna vinnumarkaðinum fékk aftur þessa hækkuðu eingreiðslu í desember 1996 en opinberir starfsmenn sátu enn eftir með hana óbreytta.

Tæknileg umræða um útreikninga Hagstofunnar hefur marg ítrekað farið fram á opinberum vettvangi og verður ekki endurtekin hér. Hins vegar má minna leiðarahöfund Morgunblaðsins og aðra þátttakendur í þessari umræðu á greinargerð Hagstofunnar um launavísitölu og launasamanburð frá 4. júlí 1994, þar sem kemur skýrt fram að upplýsingar um laun á opinbera markaðinum og einkamarkaðinum séu ekki samanburðarhæfar og í reynd sé munurinn nokkru minni, „…þar sem sennilegt er að í tölum Hagstofunnar gæti nokkurs ofmats á launabreytingum opinberra starfsmanna og bankamanna en vanmats á launabreytingum á almennum vinnumarkaði.“

Þar sem nú er lagt til að opinberir starfsmenn láti sér nægja það sem þeir hafa þegar fengið er fróðlegt að taka einn stóran starfshóp hjá báðum aðilum og bera saman laun þeirra. (Sjá meðfylgjandi súlurit.)

Skrifstofufólk innan Starfsmannafélags ríkisstofnana hefur að meðaltali 84.443 kr í greidd dagvinnulaun á mánuði og skrifstofufólk innan BHM 113.323 kr.

Skrifstofukarlar á almenna markaðinum á höfuðborgarsvæðinu hafa að meðaltali 147.400 krónur á mánuði í greidd dagvinnulaun og skrifstofukonur 110.900 kr.

Allar þessar tölur miðast við 1. ársfjórðung 1996. Tölurnar fyrir opinbera geirann eru byggðar á Fréttariti KOS (Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna) en tölurnar fyrir almenna markaðinn á Fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar (Kjararannsóknarnefnd almenna vinnumarkaðarins).

Þessi samanburður ætti að sýna að enn er langt í land að stórir hópar opinberra starfsmanna njóti sömu launa og hópar á almenna vinnumarkaðinum fyrir sambærileg störf. Boðskapur leiðara Morgunblaðsins um að skrifstofufólkið innan SFR og aðrir láglaunahópar innan BSRB hafi þegar fengið það sem þeim ber er ekki til annars en að stappa stálinu í þessa hópa. Opinberir starfsmenn ætla sér hlutdeild í efnahagsbatnum og góðærinu eftir áralanga kjararýrnun hjá launafólk á sama tíma og hagnaður hefur aukist verulega hjá atvinnufyrirtækjum og fjármagnseigendum í landinu.

Krafan í samningunum núna er einföld: Góðærið til launafólks, bæði innan opinbera geirans og einnig á almenna vinnumarkaðinum. Séu viðsemjendur tilbúnir að ganga til slíkra samninga stendur ekki á BSRB að semja á undan ASÍ.