Fara í efni

Góðæri

Birtist í Morgunblaðinu 25.08.2003
Þessa dagana er hagnaður bankanna til umræðu í fjölmiðlum. Fram eru reiddar samanburðartölur þar sem annars vegar er sýndur hagnaður eftir skatta á fyrri hluta árs 2002 og hinsvegar samsvarandi tölur fyrstu 6 mán. 2003. Búnaðarbankinn/Kaupþing skilaði nú 3065 milljónum. samanborið við rúmar 1900 milljónir á fyrri hluta síðastliðins árs. Landsbankinn skilar nú um1400 milljónum og Íslandsbanki um 2400 millj.kr. Sóloni Sigurðssyni bankastjóra þykir þetta síst of mikið, þ.e. eigið fé bankans sé um 35 milljarðar kr. Þetta þýði því "einungis" 19% arð af eigin fé. Eðlilegt er talið, að hans sögn, að arðsemi eigin fjár í bankastarfsemi sé um það bil. 20% á ári! Með sama áframhaldi munu þessir þrír höfuðbankar raka til sín um það bil 14 milljarða hagnaði á þessu ári. Við getum rétt ímyndað okkur hvort miklar líkur séu á að sá gífurlegi vaxtamunur sem viðgengst á Íslandi fari lækkandi, meðan höfuðbankar landsins snúa bökum saman í vaxtaokri og enginn er til að veita þeim aðhald. Þvert á móti hælast ráðandi öfl yfir því hversu mikið fékkst fyrir Landsbankann og Búnaðarbankann. Þetta hafa þeir leyft sér að gera þrátt fyrir að allir sem kynnt hafa sér málin sjái að bankarnir voru seldir frá þjóðinni á gjafakjörum. Nú er í ofanálag að koma í ljós að nýir eigendur beita yfirráðum sínum yfir bönkunum til að afskrifa lán hjá fyrirtækjum, sem eru undir þeirra handarjaðri. Þar með munu bankarnir lækka enn í verði! Ríkisstjórnin samdi nefnilega þannig fyrir hönd skattborgaranna, fyrrum eigenda bankanna, að kæmi í ljós að viðskiptavinir þeirra gætu ekki staðið í skilum myndi verðið lækka. Ekki nóg með þetta. Frá því var gengið að ef verðið lækkaði hjá Landsbankanum myndi hið sama gegna um Búnaðarbankann! Hinir nýju eigendur þjóðbankanna gömlu munu á met tíma endurheimta það sem þeir lögðu fram til fjárfestingarinnar og virðast vera mjög samstiga, líkt og olíufélögin og tryggingarfélögin í að halda þessum "eðlilegu" aðstæðum; jöfnum skiptum upp úr skattpyngjum almennings og  "eðlilegum" lágmarks vöxtum og vaxtamun, sem þeir telja að sjálfsögðu fráleitt ástæðu til að "keppa" um lækkun á. Hvaða ástæða er til slíks í því góðæri sem þeir búa við?