Fara í efni

GÓÐ TÍÐINDI!

Góði Ögmundur ...
Já það hafa skeð mikil og góð tíðindi í okkar ágætu Reykjavíkurborg!
Mér leist mjög vel á það sem forustumenn nýju borgarstjórnarinnar sögðu á blaðamannafundinum við Tjörnina.  Meðal annars sagði Dagur að þetta yrði félagshyggju borgarstjórn sem hefði ekki í huga að selja einstaklingum sameignir þjóðarinnar, sem sé orkuna.  Ef ég skyldi allt rétt sem sagt var þarna, líst mér vel á mannskapinn og stefnu hans í borgarmálum.

Það var sorgarfundur á hlaðinu heima hjá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni fyrrverandi borgarstjóra, þar sem hann og félagar gáfu blaðamönnum yfirlýsingar sínar. Þeir sögðust hafa þá einu hugsjón að selja einkafyrirtækjum eignir borgarbúa og landsmanna og losa þjóðina við áhyggjur af þeim, á forsendu þess að þeir væru svo velviljaðir almenningi (kjósendum) að þeir vildu ekki fara í “áhættu fjárfestingu” eða “áhættu verkefni” með eigur borgarbúa með eignir og fé þeirra.  Sem sé það sé allt í lagi að selja eða gefa fjárglæframönnunum það sem almenningur á, það ætti bara að þakka fyrir það, jafnvel eins og einn spekingurinn sem stóð fyrir aftan Vilhjálm sagði, þó fyrirtækið sem átti að fá fenginn hafi ekki einusinni verið stofnað.

Taktu eftir Ögmundur, það er mikið talað um “áhættu fjárfestingu” eða “áhættu verkefni” og varð Gísli Marteinn Baldursson óðamála útaf þessu öllu saman.  Það verður að svara þessari tuggu þeirra með áhættu fjárfestingu og áhættu verkefni sem þeir staglast á,,, RÆKILEGA því þeir munu reyna að nota það til að blekkja fólk!  Orkuveitan og ýmsar aðrar stofnannir hafa tekið að sér verkefni innanlands sem erlendis, við góðan orðstýr og góðan ágóða fyrir landsmen, ásamt að hafa öðlast góða reynslu og þekkingu.

Það er alls ekkert rangt við að fyrirtæki í almennaeign taki verkefni að sér ef svo ber við, ef rétt er farið að því. Ég treysti okkar fólki vel til að gera góða samninga ásamt því að standa að góðum og heilbrigðum framkvæmdunum, hvar sem er. Stundum eru sérverkefnin eins og um væri að ræða “cost plus” sem alls engin áhætta er í.  Þetta er bara fyrirsláttur hjá sjálfstæðismönnunum og auðvaldsbröskurunum sem eru að þjóna einhverju allt öðru og skuggalegra, en hagsmunum íslensku þjóðarinnar! 

Ég verð að segja að ég finn til með Vilhjálmi því ég tel hann vera góðan og heilbrigðan mann! En mér líst ekki eins vel á liðið sem var að baki honum á hlaðinu á blaðamannafundinum, eða kjaftamaskínurnar við hliðina á honum. Það er rétt að Vilhjálmur gerði vel í fjárhættuspilamálinu og svo með því að gefa námsmönnum frítt í strætó, enda minnti Vilhjálmur á það í blaðamannaviðtali.  Þú hefur líka margoft hrósað Vilhjálmi á heimasíðu þinni ögmundur og einnig í viðtölum í fjölmiðlum og hef ég verið mjög sáttur við það. Það má segja að það hefði verið best hefði Vilhjálmur farið með Birni Inga úr borgarstjórninni sem var, yfir til félagshyggjuborgarstjórnarinnar sem er að taka við. Félagshyggjan er göfug og mannleg!

Birni Inga Hrafnssyni óska ég til hamingju með hárrétta afstöðu og ákvörðun, sem lýsir hugrekki og dómgreind, nokkuð sem stjórnmálamenn ættu gjarnan að gera oftar!  Hér gæti verið að alvöru Framsóknarflokkurinn sem byggist á þjóðlegri félagshyggju, sem forðum, sé að endurfæðast með Guðna Ágústsson í broddi fylkingar, svo lengi að Valgerður Sverrisdóttir hvíldi sig eða gengi í Sjálfstæðisflokkinn, þar sem hún hefur alltaf átt heima!

Dagur B. Eggertsson verður eflaust góður borgarstjóri og fólkið í kringum hann mun verða góð borgarstjórn, svo lengi að það gleymi ekki skyldum sínum við borgarbúa og íslensku þjóðina í heild sinni! Að það muni að varðveita sameignir Íslendinga, sem mikið er búið að hafa fyrir að eignast, og gefa mikið af sér í aðra hönd.  Þetta fólk má ekki gleyma því eitt einasta andartak að ÖLL náttúruauðæfi Íslands, þar með ORKAN, VATNIÐ, LOFTIÐ, LANDIÐ, SJÓR og SJÁVARBOTN eiga að vera eign ALLRAR íslensku þjóðarinnar ásamt niðjum hennar að eilífu!
Kveðja,
Þjóðúlfur