Fara í efni

GLEÐILEGT SUMAR!

sumardagurinn fyrsti
sumardagurinn fyrsti

Ríkisútvarpið sagði í hádegisfréttum í dag að sumar og vetur hefðu frosið saman. Það veit á gott sagði þulurinn. Þjóðtrúin og fréttamiðillin runnu þarna saman á fremur notalegan hátt. Já vonandi veit það á gott. Þarna leggst gömul trú á sveif með bjartsýnisfólki því samkvæmt henni veit á gott þegar vetur og sumar frjósa saman.

Þannig er nú margfalt tilefni er til að brosa breitt í dag og óska hvert öðru gleðilegs sumars.

Venju samkvæmt var ég við skátamessu í Hallgrímskirkju. Það er fyrir löngu síðan orðin hefð hjá mér að sækja skátamessu á sumardaginn fyrsta. Í bland geri ég þetta til heiðurs skátunum og reyndar einnig í minningu föður míns, Jónasar B. Jónssonar, sem á sínum tíma var skátahöfðingi Íslands og mikill áhugamaður um æskulýðsstarf. Hann var og mikill baráttu- og hugsjónamaður um útivist og heilbrigt líferni. Skátahreyfingin á heiður skilið fyrir starf sitt á sviði æskulýðsmála.

Eva Einarsdóttir, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, flutti ágæta hugvekju þar sem hún minntist uppvaxtaráranna og hve mikils virði skátastarfið hefði verið sér. Svo var sungið eins og skátum er einum lagið.

Ég óska öllum gleðilegs sumars!