Fara í efni

GLEÐILEGA PÁSKA

Páskar 2
Páskar 2


Mikið er það gott þegar sölu-Ísland slakar á, verslanir loka, ljósvakinn fer í sparifötin og blöðin vanda sig þá sjaldan sem þau koma út; birta okkur efni sem þeim þykir við hæfi á hátíðarstundu - það er að segja þau þeirra sem vilja leggja uppúr hátíðarstundum.

Það er nú samt það sem þjóðin vill grunar mig; að eiga sparistundir þar sem helst allir - eða sem flestir fjölskyldumeðlimir - eru í fríi og saman. Þetta verða síðan stundir minninga.

Auðvitað sjá ekki allir þetta svona. Föstudagurinn langi hljóti einmitt að vera dagurinn til að dansa og spila bingó. En málið snýst ekki um þetta, heldur að búa til ramma sem tryggir sem flestum möguleika á að vera með sínum eða þá sjálfum sér. Ef til vill bara í ró.

Séra Davíð Þór Jónsson komst vel að orði í útvarpsþætti um helgina. Hann orðaði það einhvern veginn á þann veg að sumum virtist finnast heimurinn skulda sér eilífa afþreyingu, sé ábyrgur fyrir því að undir engum kringumstæðum leiðist nokkrum manni. Davíð Þór orðaði þetta betur en inntakið var þetta.

Auðvitað þarf að lækna og líkna sjúkum, næra túristana þessa daga sem aðra  og lögreglan þarf að gæta að öryggi okkar sem endranær.

En allt þetta á að vera í lágmarki svo flestir geti verið með sínum! Um það snýst málið, varla um að pína fólk í vinnu til að einhverjir geti fengið að spila bingó nákvæmlega núna.

Gleðilega páska!