Fara í efni

GEGN ÞÖGGUN

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 09.05.14.
Kröftugt opið lýðræðisþjóðfélag byggir á aðhaldi. Þarna eru lykilorðin opið; að samfélagið sé opið, að það sé gagnsætt, hvort sem um er að ræða viðskiptalíf eða stjórnsýslu.
Hitt lykilorðið er aðhald; að stjórnsýslan og viðskiptalífið sæti aðhaldi, hvort sem er með lögum, regluverki eða umræðu.

Braskið undan huliðshjúpnum

Færa má rök fyrir því að hvoru tveggja hafi verið ábótavant í íslensku samfélagi í aðdraganda hrunsins. Menn vissu takmarkað um hvað raunverulega átti sér stað innan múranna hvort sem var í ýmsum valdastofnunum samfélagsins eða - og reyndar miklu fremur -  í viðskiptalífinu. Þar var myrkviðið mikið enda ein megin orsök hrunsins alls kyns lítt sýnileg krosstengsl á milli einstaklinga og fyrirtækja.
Á síðari hluta liðinnar aldar höfðu stjórnvöld smám saman reynt að koma á fót regluverki til að setja fjármálalífi og braskþáttum atvinnulífsins (ekki framleiðslunni sjálfri) skorður en þeir flokkar sem fóru með völdin í aðdraganda hrunsins lögðu hins vegar allt kapp á að vinda ofan af slíku regluverki undir baráttumarkmiðinu, Einfaldara Ísland. Helst vildu þeir að land okkar yrði alheimsmiðstöð braskara! "Við eigum okkur draum", sögðu ráðherrarnir þegar þeir vísuðu í þessa hugsjón sína.
Því miður eru þessar áherslur aftur að vakna til lífsins og er mjög mikilvægt að almenningur veiti því viðspyrnu að horfið verði til fortíðar að þessu leyti. Afar mikilvægt er að tryggja gagnsæi, ekki síst í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir eru orðnir virkari fjárfestar í atvinnulífinu. Stjórnendur þeirra fara með fjármuni almennings og þurfa á aðhaldi sama almennings að halda. 
Jafnvel þótt það hendi ekki þjóðina aftur í bráð að klappa allt ruglið upp og mæra eins og gert var á árunum fram að hruni, þegar því var ákaft fagnað þegar verðmætum var stolið, sérstaklega af fátækum þjóðum í Austurvegi, þá er hitt engu að síður raunveruleg hætta að mínu mati, að núverandi ríkisstjórn reyni að færa okkur aftur til fyrri hátta með því að sveipa viðskiptalífið að nýju huliðshjúpi.

Gagnsærri stjórnsýslu og stjórnmál

Hinn þátturinn sem þarf að huga að snýr að stjórnsýslunni og stjórnmálunum. Þar er einnig þörf á aðhaldi.  
Á undanförnum árum og áratugum hefur þróunin orðið í þá átt að opna stjórnsýsluna og gera hana gagnsærri og aðgengilegri. Hægt hefur miðað en þó hafa markviss skref verið stigin. Þannig voru sett upplýsingalög árið 1996 og aftur 2012 sem voru mjög til opnunar.
Sama gildir um stjórnmálin. Í stjórnarskrá lýðsveldisins er kveðið á um þrískiptingu valdsins og kemur þar fram, svo og í lögum sem hvíla á stjórnarskránni, að Alþingi er ekki einvörðungu ætlað að setja lögin í landinu heldur jafnframt hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Þetta gerist með ýmsum hætti, fyrirspurnum  og opinni umræðu á vettvangi þingsins, kallað er eftir upplýsingum og síðan eru skipaðar rannsóknarnefndir ef þörf þykir.
Alþingi er að fóta sig áfram á þessari vegferð sinni til að styrkja eftirlitshlutverk sitt. Er þá ekki síst að vísa til Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem hefur veigmikla þætti þessa eftirlits á hendi. Starfsferlar nefndarinnar eru enn í mótun.
Sama á við um þingið að öðru leyti. Fyrirspurnir á Alþingi, munnlegar og skriflegar, sem beint er til ráðherra og ríkisstjórnar hafa smám saman verið að öðlast sess sem viðurkennd tæki þingsins í aðhaldshlutverki þess þegar upp koma vísbendingar um brotalamir í stjórnmálum eða stjórnsýslu.

Gagnrýnandinn ekki hinn seki

Eitt slíkt mál fór nýlega inn í þessa farvegi þingsins, lekamálið sem svo er nefnt. Þar hefur verið gengið eftir því við innanríkisráðherra að gera grein fyrir því hvernig á því stóð að samantekt eða minnisblað, sem slíkar samantektir yfirleitt nefnast, rataði til fjölmiðla. Skiptir þá ekki öllu máli um hvaða útgáfu minnisblaðsins um tiltekinn hælisleitanda var að ræða. Staðreyndin er sú að minnisblaði var komið til fjölmiðla á viðkvæmu augnabliki.
Um þetta er síðan spurt á Alþingi, þar á meðal í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og er það fullkomlega eðlilegt og í samræmi við þá þróun sem að framan er lýst.
Nú bregður svo við að ráðherra kallar slíkt aðför að sér og "ljótan pólitískan leik". Þetta verður vart skilið öðru vísi en tilraun til að þagga niður eðlilega gagnrýni af hálfu Alþingis.
Á þinginu hefur það fyrst og fremst vakað fyrir fyrirspyrjendum að leiða hið sanna fram og ganga úr skugga um að ráðherra hafi sagt satt og rétt frá. Það má aldrei gerast að þingmenn sem rækja eftirlits- og aðhaldshlutverk sitt samkvæmt stjórnarskrá, lögum og eigin samvisku, verði gerðir að blórabögglum; að svo verði búið um hnúta að þeir finni til sektarkenndar þess sem er að gera eitthvað á hlut annarra. Í stuttu máli að gagnrýnandinn verði hinn seki.
Sannast sagna hef ég ekki þungar áhyggjur af því að slík verði niðurstaðan en samfélagið allt þarf engu að síður að vera vakandi fyrir þeirri hættu sem stafar af hvers kyns þöggun.