Fara í efni

FYLGST MEÐ KOSNINGUM Í AZERBAIJAN

Kosningar - Azerb - 2015
Kosningar - Azerb - 2015


Sunnudaginn 1. nóvember, fóru fram þingkosningar í Azerbaijan en til þessa lýðveldis suður við Kaspíahaf fór ég á vegum Evrópuráðsins til þess að fylgjast með kosningunum ásamt um þrjátíu þingmönnum öðrum víðs vegar að úr aðildarríkjum Evrópuráðsins.

Azerbaijan getur enn sem komið er, trauðlega kallast lýðræðisríki samkvæmt okkar skilningi. Þrátt fyrir lýðræðislegar kosningar að formi til, skortir ýmis grundvallar skilyrði til þess að formlegheitin fái það inntak sem geri ríkið að lýðræðisríki. Þannig er hópur fréttamanna undir lás og slá og sama gildir um hóp baráttufólks fyrir mannréttindum.

Stjórnvöld benda á að aðstæður í landinu séu um margt annarlegar. Þannig sé fimmtungur landsins hersetinn af Armenum síðan 1994 sem tekið hafi héraðið Nagarno Karrabakh með hervaldi með þeim afleiðingum að á sjöunda hundrað þúsunda hafi hrakist frá heimilum sínum. Ætlist menn til þess að stjórnvöld láti sem vind um eyru þjóta þegar landsmenn og útvarpsstöðvar tali máli andstæðingsins í þeirri deilu? Látum við þá liggja á milli hluta hvað er rangt og hvað er rétt í þessum mikla deilumáli sem er bæði flókið og á sér langa sögu.

Og enn spyrja stjórnvöld: Veit umheimurinn að landsmenn skiptast í Shía- og Sunni- muslíma um það bil 60/40% og að úr báðum fylkingum hafi ungir menn haldið til Sýrlands og Íraks að berjast bæði með og á móti ISIS? Allt sem veldur óróa í landinu gæti orðið til að flytja átök af þessum svæðum inn til Azarbaijan. Gera menn sér grein fyrir því hvað það gæti haft í för með sér? Þannig er talað af hálfu stjórnvalda.
„Við óttumst deilur og átök", tjáði okkur formaður „Press Council", Fjölmilaráðsins og þótti sú yfirlýsing koma úr undarlegri átt eða þar til hann sagði okkur að sjálfur væri hann frá Nagarno Karrabakh, hefði misst heimili og vini í stríðinu, sofið á götunni í Bakú, allslaus og hlustað þar á Radio Liberty útvarpsstöðina sem jafnan hefði verið fjandsamleg málstað þessa vegalausa fólks. Þetta eru vissulega skiljanleg sjónarmið en að maður með slíkan harm í brjóstinu og tilheyrandi fordóma,  skuli settur til að vera eins konar samnefnari í fjölmiðlaflóru hljómar ekki sannfærandi!

Ég spurði fréttamann frá Radio Liberty, sem gagnrýnt hafði aðkomu ríkisins að fjölmiðlum hvernig hann færi þá að því að réttlæta rekstur fjölmiðils sem alfarið væri fjármagnaður af ríkisvaldi - erlendu ríkisvaldi í þokkabót - því Radio Liberty útvarpsstöðin væri kostuð af bandaríska utanríkisráðuneytinu, Pentagon, og rekin í því markmiði að hafa áróður í frammi. Fátt varð um svör. Við þetta heyrðust Þau viðbrögð frá formanni Fjölmiðlaráðs að eitt yrðu menn að skilja, nefnilega að stórveldi hefði aldrei áhuga á mannréttindum. Innra með mér tók ég undir þetta sjónarmið.

Ef einhvers staðar á við að tala um línudans í alþjóðastjórnmálum þá á það við um Azerbaijan með náin tengsl við Tyrkland og að sögn einnig við Ísrael, samstarf við NATÓ að hætti sumra fyrrum Sovétlýðvelda en um leið varfærið gagnvart Rússlandi sem styður Armena í Nagarno Karrabakh. Bandaríkjastjórn er ekki reitt til reiði að óþörfu en nálgun hennar er blendin mjög gagnvart Baku að því ég best veit.  Myndin er flókin í grimmum heimi varúlfa.

Azerbaijan er ríkt olíuland. En misskipting er mikil því oligarkar hafa náð undir sig miklum auðæfum. Völdunum halda þeir kyrfilega að sér.

Þrátt fyrir þetta á sér stað þróun í átt að lýðræði. Í mannréttindamálum hefur þó orðið afturkippur á síðustu mánuðum. Fyrir bragðið þótti mér ekki rétt að ganga eins langt í því að lofa kosningarnar eins og meirihluti eftirlitsnefndar Evrópuráðsins vildi. Var ég í hópi sjö þingmanna sem greiddi atkvæði gegn samþykki skýrslunnar en ég hafði þá ásamt þingkonu frá Grikklandi gert tillögu um breytt orðlag sem þó ekki fékkst greitt atkvæði um fremur en aðrar breytingartillögur.

Um tillögu okkar má lesa á vefsíðu vinstri flokkanna hjá Evrópuráðinu sbr. hér: http://gue-uel.org/statement-by-uel-members-mr-jonasson-and-ms-kavvadia-following-the-parliamentary-elections-in-azerbaijan/